Lög Verkalýðsfélagsins Hlífar
- kafli – Nafn félagsins, hlutverk og félagsaðild.
- gr.
Félagið heitir Verkalýðsfélagið Hlíf. Starfssvæði þess nær yfir lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, Garðabæjar. Félagið er aðili að Starfsgreinasambandi Íslands, sem er aðili að Alþýðusambandi Íslands. Heimili félagsins og varnarþing er í Hafnarfirði.
- gr
Tilgangur félagsins er:
- Að sameina allt launafólk sem starfar á samningssviði og starfs svæði félagsins.
- Að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör, bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á rétt þeirra.
- Að hafa nána og vinsamlega samvinnu við öll verkalýðsfélög innan ASÍ.
- Að vinna að fræðslu- og menningarmálum eftir því sem aðstæður leyfa.
3.gr.
Félagið vill ná til og skipuleggja innan sinna vébanda allt launafólk sem starfar á samningsviði og félagssvæði félagsins.
4.gr.
Inngöngu í félagið geta þeir fengið sem:
- Eru fullra 16 ára að aldri.
- Starfa, hafa starfað eða eru að hefja störf sem eru á samningssviði félagsins.
- Standa ekki í óbættum sökum við félagið eða önnur félög innan Alþýðusambands Íslands.
- Hafa ekki atvinnurekstur á hendi eða komi á annan hátt fram gagnvart launafólki sem fulltrúar eða umbjóðendur atvinnurekenda.
Þeir sem verið hafa félagsmenn og hafa aflað sér viðbótar menntunar á starfssviði sínu, hafa rétt á að vera áfram í félaginu.
Aukafélagar geta verið og eru eftirfarandi:
- Félagsmenn annarra verkalýðsfélaga , sem um stundasakir vinna í einhverri starfsgrein félagsins á félagssvæðinu
- Námsmenn sem eru í sumarvinnu eða í vinnu á milli námsanna og þeir sem vegna ungs aldurs geta ekki orðið fullgildir félagsmenn.
- Þeir sem starfa á samningssviði og starfssvæði félagsins án þess að verða fullgildir félagsmenn skv. 5.gr.
- Félagsmenn sem missa starf sitt á vinnumarkaði geta áfram verið félagsmenn, gegn greiðslu félagsgjalda af greiðslum úr Atvinnuleysistryggingarsjóði.
- Félagsmenn sem hætta störfum á vinnumarkaði vegna örorku eða hefja töku ellilífeyris og sem verið hafa í félaginu a.m.k. 5 ár fyrir starfslok, geta gegn greiðslu félagsgjalds, verið áfram félagsmenn þó án þess að njóta kjörgengis í félaginu.
Aukafélagar skv. a,b og c. lið 3.mgr. greiða fullt félagsgjald meðan þeir eru í vinnu á félagssvæðinu. Skv. Ákvæðum gildandi kjarasamninga félagsins á hverjum tíma. Þeir hafa málfrelsi og tillögurétt á félagsfundum en ekki atkvæðisrétt og kjörgengi. Þeir njóta allra kjara og réttinda sem samningar eða gildandi kauptaxtar félagsins kveða á um og hafa atkvæðisrétt um kjarasamninga vinnustöðvanir skv. ákvörðun félagsstjórnar.
- gr.
Umsækjendur um félagsaðild skulu óska aðildar að félaginu með inntökubeiðnum eða með skilum á gjöldum til félagsins. Aðild nýrra félagsmanna að félaginu skal staðfest af skrifstofu félagsins árlega og skal félagið senda viðkomandi tilkynningu um staðfestingu á inngöngu í félagið. Geri hann ekki athugasemdir um aðild innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningarinnar telst hann orðin fullgildur félagsmaður. Ekki er þörf sérstakrar staðfestingar ef viðkomandi hefur áður greitt til félagsins.
- kafli – Réttindi og skyldur, úrsögn og réttindamissir.
- gr.
Réttindi félagsmanna:
- Réttur til að vinna þau störf sem kjarasamningar félagsins taka til og eftir þeim kjörum sem samningar kveða á um hverju sinni.
- Málfrelsi, tillögu- og atkvæðisréttur á félagsfundum og við allsherjaratkvæðagreiðslur svo og kjör-gengi til trúnaðarstarfa innan félagsins og þeirra félagasambanda sem það er aðili að nema öðru vísi sé kveðið á um í lögum þessum.
- Réttur á styrkjum úr sjóðum félagsins, svo sem er nánar ákveðið í reglugerðum sjóðanna.
- Réttur til afnota á orlofshúsum félagsins og öðrum sameiginlegum eignum eftir því sem reglugerðir og samþykktir félagsins ákveða hverju sinni.
- Réttur til þess að sækja fræðslustarf á vegum félagsins eða samtaka sem það er aðili að.
- Réttur til aðstoðar félagsins vegna vanefnda atvinnurekenda á samningum.
- gr.
Skyldur félagsmanna:
- Að hlíta lögum félagsins, fundarsköpum, fundarsamþykktum og samningum í öllum greinum.
- Að greiða félagsgjöld.
- Að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið.
- Að veita stjórn félagsins og starfsmönnum upplýsingar um kaupgjald og vinnuskilmála hjá þeim atvinnurekendum sem þeir vinna eða hafa unnið hjá.
- Að skýra starfsmönnum félagsins eða formanni frá því ef félagsmaður verður þess var að lögbrot hafi átt sér stað í félaginu.
- gr.
Úrsögn úr félaginu:
Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg. Hún skal afhent formanni félagsins eða skrifstofu ásamt félags-skírteini úrsegjanda.
Engin getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst eða ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin af félaginu og þar til vinnustöðvuninni hefur verið formlega aflýst. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru félagi er lagt hefur niður vinnu vegna deilu.
- gr.
Skuld félagsgjalda:
Hver sá félagsmaður sem skuldar lögboðin gjöld til félagsins fyrir 6 mánuði eða meira eða getur ekki sýnt fram á að félagsgjöld hafi verið dregin af launum hans nýtur ekki fullra félagsréttinda, svo sem atkvæðis-réttar, kjörgengis né styrkja úr sjóðum félagsins kveði reglugerðir viðkomandi sjóða ekki á um annað. Félagsréttindi öðlast hann ekki á ný fyrr en skuldin er að fullu greidd.
Eins árs skuld varðar útstrikun af félagsskrá. Stjórn félagsins getur heimilað þeim eftirgjöf á félagsgjöldum sem sjúkir eru og fallið hafa af launaskrá eða taka að stunda nám.
Heiðursfélagar og þeir sem orðnir eru 70 ára og eldri og hafa verið í félaginu 5 ár eða lengur skulu vera gjaldfríir.
- gr.
Brot félagsmanns og brottvísun:
Ef félagsmaður er sakaður um brot á lögum félagsins skal málið tekið fyrir á stjórnarfundi sem ákveður, með einföldum meirihluta atkvæða, hvort veita skuli áminningu eða svipta viðkomandi félagsmanni fullri aðild að félaginu. Skjóta má þeim úrskurði til félagsfundar.
Úrskurði félagsfundar má vísa til miðstjórnar Alþýðusambands Íslands, en úrskurður félagsfundar gildir þar til miðstjórn ákveður annað.
Hafi félagsmaður verið sviptur fullgildri aðild að félaginu á hann ekki rétt til fullgildrar aðildar að nýju nema inntökubeiðni hans sé samþykkt á lögmætum félagsfundi.
- kafli – Stjórn, fastanefndir, deildir og samninganefnd.
- gr.
Skipan stjórnar:
Stjórn félagsins skipa 7 menn, formaður, varaformaður, ritari og fjórir meðstjórnendur. Varastjórn skipa 5 menn. Kjörtímabil stjórnar er 2 ár og skal kjósa samkvæmt ákvæðum 22. greinar.
- gr.
Hlutverk stjórnar:
Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli félagsfunda. Stjórnin boðar til félagsfunda. Hún ræður starfsmenn félagsins, ákveður laun þeirra og vinnuskilyrði. Stjórnin ber sameiginlega ábyrgð á eignum félagsins. Skylt er stjórn félagsins að stuðla að því að allt er varðar sögu félagsins sé sem best varðveitt. Láti félagsmaður af trúnaðarstörfum er hann gegnir fyrir félagið er honum skylt að skila af sér öllum gögnum er trúnaðarstarf hans varða. Stjórn félagsins lætur kjósa trúnaðarmenn á vinnustöðum annað hvert ár eða skipa þá þegar kosningu verður ekki við komið. Varastjórnarmenn taka sæti í stjórn í forföllum aðalmanna.
- gr.
Hlutverk formanns:
Formaður kveður til allra funda félagsins og stjórnar þeim. Í upphafi fundar hefur hann þó heimild til að stinga upp á einhverjum viðstöddum félaga til að stjórna fundinum eða vera sér til aðstoðar við fundarstjórn. Formaður undirritar gerðir félagsins og gætir þess að allir starfsmenn þess geri skyldu sína. Hann hefur eftirlit með starfsemi félagsins og eftirlit með því að fyllt sé lögum þess og reglum í öllum greinum. Hann ávísar reikningum á félagið til greiðslu. Varaformaður gegnir sömu störfum í forföllum formanns.
- gr.
Hlutverk ritara:
Ritari ber ábyrgð á að gerðabækur félagsins séu haldnar og færðar í þær allar fundargerðir, lagabreytingar og aðalreikningur. Fundargerðabækur og önnur skjöl félagsins skulu geymd á skrifstofu þess. Heimilt er að hljóðrita félagsfundi.
- gr.
Stjórnin ber öll sameiginlega ábyrgð á sjóðum félagsins. Sjóðir félagsins skulu geymdir og ávaxtaðir á vöxtum í bönkum, sparisjóðum eða skuldabréfum, tryggðum með veði í fasteign eða og annarra lánastofnana sem lúta eftirliti opinbera eftirlitsaðila eða á annan hátt sem stjórn félagsins metur öruggan eða með öðrum jafn tryggilegum hætti.
- gr.
Deildir:
Heimilt er stjórn félagsins að skipa félagsmönnum í deildir eftir starfsgreinum og fær þá hver deild sérstaka stjórn og starfsreglur sem félagið samþykkir.
- gr.
Fastar nefndir:
Fastar nefndir skulu vera fræðslunefnd, uppstillinganefnd, laganefnd og kjörstjórn. Þrjár fyrst töldu nefndirnar skulu skipaðar af stjórn félagsins á fyrsta fundi eftir aðalfund. Kjörstjórn skal skipuð samkvæmt reglugerð um allsherjaratkvæðagreiðslu ASÍ.
Fræðslunefnd skal hlutast til um að haldin séu námskeið og fræðslufundir fyrir félagsmenn og sjá til þess að námskeiðsefni sé valið eftir þörfum félagsmanna. Nefndina skipa 3 menn.
Uppstillinganefnd skal gera tillögur um menn í trúnaðarstöður félagsins. Nefndina skipa 3 menn.
Laganefnd skal á hverju ári yfirfara lög félagsins og gera tillögur til breytinga ef þörf krefur fyrir 15. desember. Nefndina skipa 3 menn.
Kjörstjórn skal skipuð þremur mönnum. Aðalfundur félagsins tilnefnir tvo menn en miðstjórn ASÍ skipar þann þriðja og er hann formaður nefndarinnar. Jafnmargir skulu vera tilnefndir til vara á sama hátt.
- gr.
Samninganefnd / Trúnaðarráð :
Samninganefnd skal vera starfandi í félaginu og er hún jafnframt trúnaðarráð félagsins. Nefndina skipar stjórn og varastjórn félagsins. Þar til viðbótar kýs félagsfundur í nefndina 15 af trúnaðarmönnum félagsins á vinnustöðum. Formaður samninga-nefndar skal vera formaður félagsins. Í forföllum aðalmanna í samninganefnd félagsins skal stjórninni heimilt að velja varamenn úr hópi trúnaðarmanna á vinnustöðum. Listi með nöfnum samninganefndar-manna skal liggja fyrir eigi síðar en 14 vikum áður en samningar eru lausir.
Samninganefnd kemur fram fyrir hönd félagsins við gerð kjarasamninga. Samninganefnd hefur m.a. umboð til að setja fram kröfugerð félagsins, gera áætlun um skipulag viðræðna við endurnýjun kjarasamninga, gera tillögur að samningum, taka þátt í samningaviðræðum og slíta þeim, óska milligöngu sáttasemjara um samningaumleitanir og undirrita kjarasamninga.
Samninganefnd er heimilt:
- Að fela stjórn félagsins umboð sitt til gerðar kjarasamnings og undirritunar hans.
- Að skipa með sér verkum eftir samningssviðum og gera sérkjarasamninga um hvert starfssvið eða einstaka vinnustaði.
- Að kalla hvern þann félagsmann til starfa með sér sem hún telur þörf á hverju sinni.
- Að fela sameiginlegri samninganefnd fleiri félaga eða sambanda umboð sitt til samningagerða að hluta eða öllu leyti.
- Að kveða á um sameiginlega atkvæðagreiðslu félagsmanna hlutaðeigandi félaga eftir því sem nefndin kann að ákveða hverju sinni eða um kann að semjast með kjarasamningi.
- Að aflýsa vinnustöðvun eða fresta boðaðri vinnustöðvun einu sinni eða oftar um allt að 28 sólahringa samtals eða fela stjórn félagsins umboð sitt til þess.
Komi til atkvæðagreiðslu í samninganefndinni ræður einfaldur meirihluti.
Ákvarðanir samninganefndar um að fela sameiginlegri samninganefnd fleiri félaga umboð sitt um sameiginlegar atkvæðagreiðslur og um að aflýsa eða fresta vinnustöðvun eru því aðeins lögmætar og bindandi að þær hafi verið samþykkar með ¾ hlutum greiddra atkvæða á löglegum samninganefndarfundi.
Samninganefnd er þó óheimilt að framselja sameiginlegri samninganefnd umboð sitt til að undirrita kjarasamninga og ákveða sameiginlegar atkvæðagreiðslur um þá.
Formaður félagsins boðar samninganefnd til fundar.
- kafli – Allsherjaratkvæðagreiðsla.
- gr.
Allsherjaratkvæðagreiðslu skal viðhafa:
- Um kosningu stjórnar og skoðunarmanna reikninga félagsins.
- Um vinnustöðvun. Nú er vinnustöðvun einungis ætlað að taka til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað og er þá heimilt að taka ákvörðun um vinnustöðvun með atkvæðum þeirra sem henni er ætlað að taka til.
- Um miðlunartillögu ríkissáttasemjara eftir því sem við á.
- Þegar stjórn félagsins, samninganefnd eða lögmætur félagsfundur samþykkir að viðhafa allsherjar-atkvæðagreiðslu í félaginu um tiltekin mál. Slíkar atkvæðagreiðslur er þó aðeins hægt að viðhafa um mál, sem lögð eru þannig fyrir að hægt er að svara með já eða nei eða kjósa þurfi á milli tveggja tillagna og skulu þá útbúnir greinilegir atkvæðaseðlar um málið, svo að kjósandi þurfi aðeins að krossa við já eða nei, eða við aðra tillöguna ef tvær eru.
- Við allsherjaratkvæðagreiðslu skal fara eftir reglugerð ASÍ þar að lútandi eftir því sem við á. Í stað allsherjaratkvæðagreiðslu á kjörfundi er stjórn félagsins heimilt að viðhafa almenna leynilega póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna.
- Við undirbúnings allsherjaratkvæðagreiðslu í félaginu skal taka á kjörskrá alla greiðandi félagsmenn sem iðgjöld bárust af á síðustu 2 mánuðum áður en kjörskrá er útbúinn (viðmiðunardagur) og sem greitt hafa iðgjald til félagsins á síðustu 5 mánuðum fyrir viðmiðunardag sem nemi a.m.k. 1% iðgjaldi af einum mánaðarlaunum á lámarkstaxta félagsins.
- kafli – Fundir og kosningar til trúnaðarstarfa.
- gr.
Félagsfundir:
Félagsfundi skal halda þegar stjórninni þykir ástæða til eða þegar 60 félagsmenn krefjast þess skriflega, enda sé fundarefni tilgreint af þeim er kröfuna gera. Fundi skal boða með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara með vinnustaðaauglýsingum, auglýsingum í ríkisútvarpi eða sjónvarpi og staðar- eða dagblaði. Þó má í sambandi við vinnudeilur (svo sem boðun eða afboðun verkfalla) boða fundi með skemmri fyrirvara ef brýna nauðsyn ber til. Fundir eru lögmætir sé löglega til þeirra boðað. Fundum félagsins skal stjórnað eftir almennum fundarsköpum. Ágreiningsatriði um fundarsköp úrskurðar fundarstjóri hverju sinni með rökstuddum úrskurði. Óski félagsmaður eftir skriflegri atkvæðagreiðslu á félagsfundi er fundarstjóra skylt að verða við þeirri ósk.
- gr.
Aðalfundur:
Aðalfundur félagsins skal haldinn í apríl ár hvert. Aðalfundur skal boðaður með dagskrá með 7 daga fyrir-vara og er lögmætur ef löglega er til hans boðað.
Á aðalfundi skulu tekin fyrir eftirfarandi mál:
- Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
- Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
- Lýst kjöri stjórnar og varastjórnar félagsins og félagslegra skoðunarmanna ásamt stjórnum og varastjórnum sjúkrasjóðs og orlofsheimilasjóðs.
- Lagabreytingar ef tillögur liggja fyrir.
- Kosning 2ja manna í kjörstjórn og tveggja til vara.
- Önnur mál.
Stjórn félagsins er heimilt að boða til aukaaðalfundar ef brýn nauðsyn ber til.
- gr.
Kosningar:
Viðhafa skal allsherjaratkvæðagreiðslu við kjör stjórnar og skoðunarmanna reikninga og skal tilhögun hennar fara eftir reglugerð ASÍ þar að lútandi.
Skila þarf lista til kjörstjórnar samkvæmt A-lið þessarar greinar annað hvert ár og B-lið hitt árið.
A-liður:
- Formaður, ritari og tveir meðstjórnendur kosnir til tveggja ára.
- Tveir varamenn í stjórn kosnir til tveggja ára.
- Tveir félagslegir skoðunarmenn reikninga og einn til vara kosnir til eins árs.
- Stjórn sjúkrasjóðs, formaður, varaformaður og ritari kosnir til eins árs og jafn margir til vara.
B-liður:
- Varaformaður og tveir meðstjórnendur kosnir til tveggja ára.
- Þrír varamenn í stjórn kosnir til tveggja ára.
- Tveir félagslegir skoðunarmenn reikninga og einn til vara kosnir til eins árs.
- Stjórn sjúkrasjóðs, formaður, varaformaður og ritari kosnir til eins árs og jafn margir til vara.
Uppstillinganefnd skal gera tillögur um félagsmenn í trúnaðarstöður félagsins sbr. 17. gr. Tillögum sínum skilar nefndin til kjörstjórnar eigi síðar en 1. febrúar. Uppstillinganefnd skal tilkynna skriflega þeim félagsmönnum er hún hefur tilnefnt til trúnaðarstarfa.
- kafli – Fjármál.
- gr.
Árgjöld skulu vera eitt prósent af launum og innheimtast hjá atvinnurekendum.
- gr.
Af tekjum félagsins skal greiða öll útgjöld þess, svo sem húsaleigu, prentunarkostnað, laun starfsmanna og annan rekstrarkostnað félagsins, skatt til þeirra landssambanda sem félagið er aðili að og kostnað sem stafar af löglegum samþykktum félagsfunda, trúnaðarráðs eða stjórnar félagsins.
Við meiriháttar ráðstafanir á eignum félagsins þarf samþykki félagsfundar.
- gr.
Tveir félagslegir skoðunarmenn reikninga skulu yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og gera athugasemdir sínar við þá. Auk athugunar félagslegra skoðunarmanna reikninga er stjórn félagsins skylt að láta löggiltan endurskoðanda endurskoða reikninga og fjárreiður félagsins í lok hvers reikningsárs.
- gr.
Sjóðir félagsins eru:
Félagssjóður, sjúkrasjóður, vinnudeilusjóður, starfsmenntunarsjóður, orlofssjóður, svo og aðrir sjóðir sem stofnaðir kunna að verða. Allir sjóðir félagsins, aðrir en félagssjóður, skulu hafa sérstaka reglugerð samþykkta af aðalfundi. Reglugerðum sjóða má einungis breyta á aðalfundi.
Reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, hverjar tekjur hans skulu vera, hvernig verja skuli fé hans og hvernig honum skulu stjórnað.
Sjóðir félagsins skulu ávaxtaðir á tryggan hátt í ríkisskuldabréfum, í ríkistryggðum skuldabréfum, í bönkum sparisjóðum, og í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign og annarra lánastofnana sem lúta eftirliti opinbera eftirlitsaðila eða á annan hátt sem stjórn félagsins metur öruggan.
Tekjur félagsins skiptast milli sjóðanna samkvæmt ákvæðum í reglugerðum þeirra.
- kafli – Lagabreytingar og félagsslit
- gr.
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og skulu breytingarnar hafa verið ræddar á öðrum fundi minnst viku fyrir aðalfund.
Breytingar á lögum ná því aðeins gildi að þær séu samþykkar með tveimur þriðju hlutum (2/3) greiddra atkvæða og koma þá fyrst til framkvæmda er miðstjórn ASÍ og framkvæmdastjórn SGS hafa staðfest þær.
- gr.
Komi fram tillaga um að lögbinda félagið við annað félag eða slíta slíku sambandi þarf um hana sama atkvæðamagn og um lagabreytingu.
- gr.
Félaginu verður ekki slitið nema þrír fjórðu (3/4) allra félagsmanna samþykki það að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu. Verði samþykkt að leggja félagið niður, skal Alþýðusamband Íslands varðveita eignir þess þar til annað verkalýðsfélag er stofnað með sama tilgangi á félagssvæðinu. Fær það félag þá umráð eignanna að áskildu samþykki miðstjórnar Alþýðusambands Íslands
Þannig samþykkt á aðalfundi Verkalýðsfélagsins Hlífar með áorðnum breytingum þann 30.03.2017.
Kolbeinn Gunnarsson
Linda Baldursdóttir
Eyþór Þ. Árnason