Hlífardeilan 1939
Undir lok 4. áratugar síðustu aldar voru talsverð pólitísk átök í verkalýðshreyfingunni. Bæði deildu fylkingar um forystu í einstökum félögum, en deilurnar hverfðust ekki hvað síst um skipulagsleg tengsl Alþýðusambandsins og Alþýðuflokksins. Þeirri skoðun hafði vaxið fiskur um hrygg, að slíta bæri þessi tengsl. Það sjónarmið var stutt jafnt frá hægri sem frá vinstri, jafnt af Sjálfstæðismönnum sem kommúnistum.
Alþýðuflokksmenn sem voru í forystu í Hlíf voru þessu mótfallnir. Á fjölmennum aðalfundi í félaginu þann 29. janúar 1939 vinna þeir sigur í stjórnarkjöri sem slíta vilja tengslin og Helgi Sigurðsson er kjörinn formaður með 16 atkvæðum fram yfir formannsefni Alþýðuflokksins. Sama gildir um aðra stjórnarmenn. Á framhaldsaðalfundi þann 12. febrúar er samþykkt að víkja 12 mönnum úr félaginu, enda séu þeir komnir í atvinnurekendastétt.
Miðstjórn Alþýðusambandsins bregst við daginn eftir með svohljóðandi samþykkt:
„Þar sem Verkamannafélagið Hlíf í Hafnarfirði hefur vikið burt úr félaginu, án allra saka og bersýnilega af pólitískum ástæðum, 12 mönnum, þ.a.m. mörgum beztu forvígismönnum félagsins að fornu og nýju, og hefur með þessari athöfn brotið gegn 61. og 63. gr. laga Alþýðusambandsins, þá samþykkir sambandsstjórn að víkja Verkamannafélaginu Hlíf úr Alþýðusambandinu og svipta það öllum réttindum sem sambandsfélag.“
Verkamannafélag Hafnarfjarðar
Daginn eftir gengst sambandsstjórn ASÍ fyrir stofnun nýs félags í Hafnarfirði, Verkamannafélags Hafnarfjarðar. Það er þegar tekið inn í Alþýðusambandið, í stað Hlífar. Félagið gerði strax kjarasamning við bæjarfyrirtækin og í samningunum eru ákvæði um forgangsrétt félagsmanna hins nýja félags til vinnu.
Daginn eftir er fjölmennur fundur í Hlíf. Á hann berast úrsagnir 142 verkamanna og 20 millistéttarmanna, eins og segir í frásögn Jóns Rafnssonar. Á fundinum ríkir baráttuandi, þrátt fyrir blóðtökuna. Daginn eftir, þann 16. febrúar átti að hefjast uppskipun úr b.v. Júní. Þann dag eru fjölmargir úr báðum fylkingum mættir á bryggjunni, fleiri Hlífarmenn þó. „Ekki líður á löngu þar til lið VH-manna fer að tínast á burt og Hlífarmenn eru einir með lið sitt á bryggjunni. Hlíf hefur haldið velli í fyrstu lotu.“ (Vor í verum).
Áfram er deilt og stóryrði ganga á milli. Þann 20. febrúar er Hlíf stefnt fyrir Félagsdóm af Bæjarútgerðinni og daginn eftir er Júní afgreiddur á Akranesi, með fulltingi stjórnar ASÍ. Þessar aðgerðir gera ekki annað en efla baráttuanda Hlífarmanna. Þann 25. febrúar fellir Félagsdómur þann dóm að verkfall Hlífar er dæmt ólöglegt (sem var vitað) og félagið var dæmt til að greiða 1000 krónu sekt. Meiru skipti þó, að dómurinn leit svo á, að taxti Hlífar frá 15. september 1937 jafngildi samningi og atvinnurekendur hefðu greitt samkvæmt honum. Þarmeð hefðu þeir undirgengist öll ákvæði, þar með talið ákvæði um forgangsrétt Hlífarmanna til vinnu. Með því að semja við Verkamannafélag Hafnarfjarðar um forgangsréttinn hefðu atvinnurekendur brotið samning á Hlíf.
Hlíf hafði því sigur í deilunni og verkamennirnir úr VH gengur aftur í sitt gamla félag. Skipulagsleg tengsl Alþýðusambandsins og Alþýðuflokksins voru að fullu rofin á þingum sambandsins 1940 og ’42. Óhætt er að fullyrða, að Hlífardeilan 1939 gegndi lykilhlutverki í þeirri niðurstöðu.
(M.a. byggt á Vor í verum eftir Jón Rafnsson, bls. 252-270)