Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að launafólk flytji lífeyrissparnað sinn til erlendra tryggingafélaga. Sölumenn þessara félaga hafa herjað sérstaklega á ungt fólk á vinnumarkaði og fengið það til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði sínum og tilgreindri séreign í slíkan sparnað.
Þessi erlendu félög – Allianz, Bayern-Líf og VPV, taka hátt hlutfall sparnaðar launafólks í þóknanir og annan kostnað sem verður til þess að ávöxtun lífeyrissparnaðar verður minni en sé honum öllum ráðstafað til íslenskra lífeyrissjóða. Þá beitir sölufólk þessara félaga vafasömum aðferðum við að fá fólk til að skrifa undir samninga, líkt og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.
Vísbendingar eru um að þessi erlendu félög og umboðsaðilar þeirra á Íslandi herji sérstaklega á ungt fólk á vinnumarkaði sem hefur takmarkaða þekkingu á lífeyrismálum og áttar sig kannski ekki á afleiðingum þess til lengri tíma að flytja sparnað sinn til þessara aðila.
Stór hluti sparnaðar fer í þóknanir
Samkvæmt útreikningum Ólafs Páls Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Íslenska lífeyrissjóðsins, fara himinháar upphæðir í þóknanir og annan kostnað hjá erlendum vörsluaðilum lífeyrissparnaðar – upphæðir sem dragast frá lífeyrissparnaði íslensks launafólks.
Sem dæmi renna 25,8% af sparnaði launamanns sem ráðstafar sparnaði sínum til Allianz í kostnað á fyrstu fimm árum samningstímans. Yfir 40 ára samningstíma er hlutfall kostnaðar af sparnaði launamanns 7,9% að meðaltali. Þetta jafngildir milljörðum króna sem dregnir eru af sparnaði launafólks og renna beint í vasa erlendra tryggingarfélaga og íslenskra umboðsaðila þeirra.
Engar þóknanir hjá íslenskum lífeyrissjóðum
Samkvæmt ársuppgjöri Íslandsbanka, móðurfélags Allianz á Íslandi, námu þóknunartekjur Allianz á árinu 2024 um tveimur milljörðum króna. Langstærsti hluti tekna félagsins kom frá þóknunum af lífeyrissparnaði launafólks.
Íslenskir lífeyrissjóðir taka ekki þóknanir af lífeyrissparnaði sjóðfélaga, enda er lífeyrissjóðum ekki heimilt samkvæmt lögum að ráðstafa sparnaði fólks í þóknanir eða annan kostnað. Því liggur vafi á um hvort þóknanir þessara erlendu aðila af lífeyrissparnaði launafólks séu í samræmi við íslensk lög.
Treystum ekki hverjum sem er fyrir sparnaði okkar
Verkalýðsfélagið Hlíf hvetur félagsfólk sitt til að vera á varðbergi gagnvart gylliboðum þessa sölufólks og hugsa sig tvisvar um áður en skrifað er undir samninga sem fela í sér að stór hluti lífeyrissparnaðar þess renni beint í vasa þriðju aðila.
