Verklagsreglur Sjúkrasjóðs
Umsóknir
Umsóknir skulu vera rétt út fylltar og að öll nauðsynleg fylgiskjöl liggi fyrir. Að öðrum kosti hefur starfsmaður sjúkrasjóðs ekki heimild til að afgreiða þær.
Persónuvernd
Allar umsóknir eru meðhöndlaðar í samræmi við reglur um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Öll gögn er tengjast meðferð mála einstaklinga eru varðveitt í læstum hirslum og gögnum sjúkrasjóðs eytt eftir tilskilinn tíma.
Samskipti
Umsækjendur um dagpeninga eða styrki úr sjúkrasjóði félagsins geta fengið leiðbeiningar og fyrirgreiðslu á skrifstofu félagsins. Að auki veitir starfsmaður sjúkrasjóðsins upplýsingar og svarar fyrirspurnum, sjukra@hlif.is, eða í síma 510 0800. Við afgreiðslu mála sjúkrasjóðs er lögð áhersla á að starfsfólk félagsins fari eftir almennum stjórnsýslureglum og að öllum erindum sé svarað skilmerkilega og innan eðlilegs frests.
Greiðslur
Allar greiðslur til sjóðsfélaga eru greiddar inn á bankareikning viðkomandi í íslenskum banka. Gjaldkera félagsins er óheimilt að greiða dagpeninga eða styrki inn á bankareikning á nafni annars en umsækjanda, nema fyrir liggi umboð félagsmanns staðfest af vottum.
Ferli umsókna
Umsókn og fylgiskjöl eru send starfsmanni Sjúkrasjóðs sem fer yfir umsóknina og skjölin. Komi í ljós að umsókn sé ekki rétt út fyllt eða að gögn vantar reynir starfsmaður að hafa samband við umsækjenda og láta vita. Því er nauðsynlegt að láta símanúmer og/eða netfang fylgja með umsóknum.
Starfsmanni er heimilt að afgreiða án sérstakrar umfjöllunar stjórnar sjóðsins þær umsóknir sem reglugerð kveður skýrt á um hvernig skuli afgreiða. Leiki vafi á því, skal bera málið undir stjórn sjóðsins og bóka sérstaklega í fundargerð.
Styrkir úr sjóðnum eru að lágmarki greiddir út tvisvar í mánuði og sjúkradagpeningar einu sinni. Heimilt er að greiða styrki vikulega, sé af því hagræði. Berist umsóknir eða gögn vegna umsókna of seint bíður greiðsla vegna umsóknarinnar til næstu útborgunar eftir að gögn berast. Ekki eru gerðar undantekningar á greiðsludögum nema ljóst sé að starfsmenn félagsins hafi gert mistök og að þess vegna hafi greiðsla ekki verið innt af hendi. Upplýst skal um greiðsludaga á vef félagsins.
Umsóknir sem krefjast úrskurðar
Stjórn Sjúkrasjóðs kemur saman þegar þörf er á og þar leggur starfsmaður sjúkrasjóðs fram þær umsóknir sem hann vill úrskurð sjóðsstjórnar um. Stjórn fer þá yfir gögn málsins og kveður upp úrskurð. Ef umsókn er hafnað skal það tilkynnt skriflega með rökstuðningi.
Ekki er heimilt að afgreiða umsóknir frá starfsmanni félagsins eða nánum venslamanni hans, nema þær séu bornar undir formann eða varaformann félagsins áður.
Eftirlitshlutverk sjóðsstjórnar
Þrátt fyrir heimild til starfsmanns um að afgreiða hefðbundnar umsóknir án úrskurðar hefur stjórn eftirlitshlutverk. Miðað er við að hún kalli tilviljanakennt eftir gögnum um afgreiddar umsóknir og fari yfir gögnin og afgreiðslu málsins.
Áfrýjunarréttur félagsmanns
Uni félagsmaður ekki úrskurði stjórnar getur hann áfrýjað úrskurðinum til aðalstjórnar félagsins og getur fengið aðstoð starfsfólks félagsins við að útbúa erindi þess eðlis. Úrskurður aðalstjórnar er endanlegur.
Dánarbætur
Dánarbætur/útfararstyrkur greiðast inná bankareikning hins látna félagsmanns. Ef óskað er eftir að greitt sé inná annan bankareikning skal leggja fram umboð skiptastjóra eða annarra lögerfingja vegna þessa. Skiptastjóri er fulltrúi Sýslumanns á staðnum.
Samþykkt á fundi í stjórn Sjúkrasjóðs, 27. maí 2024.