Breiðfylking landssambanda og stærstu verkalýðsfélaga í Alþýðusambandinu hefur vísað kjaradeilunni við SA til ríkissáttasemjara, eftir að viðræður sigldu í strand, vegna afstöðu SA.
Forystumenn Breiðfylkingarinnar sendu frá sér eftirfarandi tilkynningu í kjölfar viðræðuslita:
Komið er að krossgötum í viðræðum Breiðfylkingar stærstu landssambanda og stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði við Samtök atvinnulífsins. Eftir fjölda funda er komið í ljós að SA fallast ekki á hófsama nálgun Breiðfylkingarinnar.
Breiðfylkingin tjáði í yfirlýsingu þann 17. janúar áhyggjur sínar af illskiljanlegum viðsnúningi í framgöngu SA. Breiðfylkingin benti þar á að hljóð og mynd færu ekki saman milli opinberra yfirlýsinga SA milli jóla og nýárs og þess sem lagt hefur verið fram í reynd við samningsborðið.
Á samningafundi í dag lögðu SA fram tilboð þar sem þau buðu lægri launahækkanir en í áður framlögðu tilboði þeirra frá 17. janúar sl. Slík framganga í kjaraviðræðum er fáheyrð og kallar á að aðilar endurskoði grundvallarnálgun sína.
Breiðfylkingin hefur aldrei hvikað frá því markmiði að gera langtímakjarasamning á grunni hófsamra krónutöluhækkana, þar sem markmiðið er að ná hratt niður verðbólgu og vöxtum um leið og ríkið geri löngu tímabæra leiðréttingu á barna-, húsnæðis- og vaxtabótum. Breiðfylkingin kynnti útfærðar tillögur sínar, þar með talið nákvæmar kröfur varðandi launalið, fyrir SA þann 28. desember sl. og hefur síðan þá lagt fram ný tilboð þar sem komið hefur verið til móts við kröfur SA.
Breiðfylkingin harmar þá stöðu sem upp er komin og að SA hafi ekki gripið það tækifæri sem fólst í viðræðum á þessum grunni.
Af þessum ástæðum hefur Breiðfylkingin tekið ákvörðun um að vísa kjaradeilunni formlega til ríkissáttasemjara í dag. Felur það í sér að sáttasemjari tekur yfir stjórn viðræðna og stéttarfélögin færast skrefinu nær því að geta beitt þeim úrræðum sem vinnulöggjöfin heimilar að fullreyndum viðræðum.