Segir Eyþór Þormóður Árnason, varaformaður Verkalýðsfélagsins Hlífar
Eyþór Þormóður Árnason hafði ekki mikið velt fyrir sér verkalýðsmálum á yngri árum. Það breyttist fljótt eftir að hann byrjaði að vinna í álverinu í Straumsvík, árið 2001. Þar var öflugt kerfi trúnaðarmanna og stéttarvitund sterkari meðal starfsfólks en hann hafði kynnst annars staðar. Þetta markaði framhaldið og nú er Eyþór orðinn varaformaður Hlífar.
„Ég er fæddur í Reykjavík en fjölskyldan, foreldrarnir ásamt mér og tveimur systrum, flutti á Álfaskeiðið í Hafnarfirði þegar ég var nokkurra mánaða gamall. Þar ólst ég upp og þar var fjölskyldan alla mína barnæsku. Þaðan á ég eiginlega bara góðar minningar,“ segir Eyþór.
Var í „gullaldarliðinu“
Leiðin lá í Lækjarskólann, í sex ára bekk hjá Óla B. sem margir Hafnfirðingar þekkja af góðu. „Síðan fór ég í Víðistaðaskóla í 2-3 ár og aftur í Lækjarskóla, þar sem ég kláraði grunnskóla. Síðan var leiðin bara hefðbundin,“ segir Eyþór. Hann fór í Flensborg og lauk stúdentsprófi þaðan af félagsfræðibraut árið 1985. „Það var einu ári á eftir jafnöldrunum, því ég var valinn í unglingalandslið og landslið 21 árs og yngri í körfubolta. Ég tók körfuboltann fram yfir skólann, fór meðal annars í tvær keppnisferðir til útlanda sem hægðu á náminu.“ Eyþór byrjaði seint að æfa, var orðinn 14-15 ára þegar hann fór að mæta á æfingar hjá Haukum. Þar kynntist hann góðum félögum; Ólafi Rafnssyni heitnum sem síðar varð meðal annars forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, Pálmari Sigurðssyni, Reyni Kristjánssyni og mörgum öðrum góðum félögum. „Ég held að óhætt sé að kalla þetta gullaldarliðið hjá Haukum í körfunni.“
Eftir þetta fór Eyþór að vinna ýmis störf. Hann var um tíma á auglýsingastofu og vann margs konar verkamannavinnu, meðal annars í kjarnaborun og steinsteypusögun. Um það bil tuttugu og fimm ára gamall hóf hann störf hjá hjá Skeljungi, fyrst við afgreiðslu en tók síðan við rekstri á tveimur stöðvum, í Garðabæ og Reykjavík. Eyþór fór um tíma í nám í lögfræði, en það átti ekki við hann og hann fór aftur til Skeljungs.
Straumhvörf um aldamótin
Síðan urðu ákveðin tímamót árið 2001 þegar Eyþór hóf að vinna í álverinu í Straumsvík. „Þá var ég ráðinn sem almennur starfsmaður í kerskála, á þrískiptum vöktum. Þar var ég í 14 ár, til ársins 2015. Eftir fjögur eða fimm ár gaf ég kost á mér sem trúnaðarmaður í kerskálanum. Það má segja að þar hefjist þessi saga mín með Verkalýðsfélaginu Hlíf,“ segir Eyþór. Eftir að hafa verið trúnaðarmaður í 2-3 ár var hann kjörinn í stjórn Hlífar. Síðla árs 2014 varð hann aðaltrúnaðarmaður alls starfsfólksins og gegndi því starfi fram á mitt ár 2018. „Þá hætti ég í Straumsvík og kom hingað inn á skrifstofuna 1. ágúst 2018. Ég var fyrst almennur starfsmaður á skrifstofunni, ásamt því að vera í stjórninni. Síðan var ég kjörinn varaformaður á aðalfundi vorið 2019.“
Þetta er atvinnusaga hans í stórum dráttum. „Það sem snýr að þátttöku í verkalýðsmálum hefur eiginlega gerst af sjálfu sér og undið sjálfkrafa upp á sig. Straumsvík er sérstakur vinnustaður, þar er talsvert sterk stéttarvitund meðal starfsfólks. Þar er öflugt kerfi trúnaðarmanna og oftast hafa öflugir einstaklingar valist sem trúnaðarmenn.“ Eyþór segir að stundum sé tekist á og margir sem hafi valist sem trúnaðarmenn hafi orðið mjög virkir í sínum félögum og farið að vinna á skrifstofum þeirra eða verið kjörnir í stjórn. Ýmsir af öflugustu verkalýðsforingjum landsins í gegnum tíðina hafi einhvern tíma starfað í Straumsvík. „Þetta hefur því reynst mörgum mikilvægur skóli og hann hefur mjög sett mark sitt á hvernig ég hugsa. Kjaramál voru ekki ofarlega á baugi í kringum mig í uppeldinu, en í Straumsvík kynntist ég öflugu fólki sem opnaði augu mín fyrir mikilvægi og nauðsyn sterkrar kjarabaráttu. Ég áttaði mig á því að ekkert gerist af sjálfu sér.“
Mikill og aukinn kraftur í Hlíf
Aðspurður um hvernig hann hafi upplifað félagið þann tíma sem hann hefur verið virkur, segir hann það hafa breyst talsvert, það hafi nútímavæðst og þroskast og sé enn að taka stór skref í þeim efnum. „Starfsfólki hefur fjölgað og við erum því fljótari að bregðast við. Ég finn í samskiptum við félagsmenn að félagið er orðið sýnilegra og það snertir sína félagsmenn meira en áður. Starfsmannahópurinn er öflugur og það skilar sér. Ég held að félagsmennirnir finni fyrir þessu, þeir sem leita til félagsins eru miklu fleiri en þeir voru. Þá er ég að tala um sumarhúsin, styrkina og ekki síst þá sem koma hingað til að leita aðstoðar vegna einhverra kjaramála. Það er sjálfsagt að einhverju leyti vegna aðstæðna á vinnumarkaði, en líka vegna þess að fólk hefur fengið úrlausn sinna mála. Það spyrst út, ekki síst meðal erlendra starfsmanna. Síðan höfum við gert ýmislegt til að hafa frumkvæði að því að snerta félagsmennina, láta þá vita af okkur. Félagið er núna á næstu vikum og mánuðum að taka stór skref inn í framtíðina með upptöku nýs félagsmannakerfis.“
Þegar Eyþór er spurður hvort verkalýðsbarátta verði mikilvæg í framtíðinni, er hann fljótur til svars. „Já. Ég kynntist verkalýðsbaráttu í Frakklandi dálítið þegar ég var í álverinu. Þar er almenn þátttaka í stéttarfélögum brot af því sem hún er hér. Þeir öfunduðu mig þegar ég sagði þeim hvert hlutfall þátttöku væri. Það er þó auðvitað ekki nóg, það þarf að vera virkt og öflugt baráttutæki. Það þýðir að við sem erum í forystu og störfum fyrir félagsmennina verðum að vera opin fyrir nýjungum. Við verðum að vera sveigjanleg og á tánum gagnvart þörfum og óskum félagsmannanna.“ Hann er þeirrar skoðunar að framtíð Hlífar, þessa rótgróna félags, sé mjög björt. „Við erum hér mitt á milli Reykjavíkur og Suðurnesjanna, í miðju þessa stóra atvinnusvæðis. Ég sé félagið gegna miklu hlutverki. Síðan skiptir líka máli fyrir framtíð félagsins, að á félagssvæði Hlífar erum við með tiltölulega stöðugan vinnumarkað. Við höfum til dæmis fundið mun minna fyrir áhrifum af samdrætti í ferðamennsku en til dæmis félögin suður með sjó.“ Þegar rætt er um mögulegar sameiningar við önnur verkalýðsfélög segist Eyþór ekki hafa efasemdir um mikilvægi stærðarinnar. Hann segist þó ekki viss um að sameining við risafélag, eins og til dæmis Eflingu, þjónaði hagsmunum Hlífarfólks til lengri tíma, án þess að útiloka það. „Mér finnst aftur á móti vel athugandi til að byrja með að auka samstarf við önnur félög. Ég nefni til dæmis félögin á Suðurnesjum í því sambandi. Svo veit maður ekkert til hvers aukið samstarf leiðir á endanum. Það hlýtur að fara eftir því hvernig gengur. Íbúafjöldinn suður með sjó er að aukast og byggðin er að færast nær okkur.“
”Við erum hér mitt á milli Reykjavíkur og Suðurnesjanna, í miðju þessa stóra atvinnusvæðis. Ég sé félagið gegna miklu hlutverki.
Karpað um fleira en kaup og kjör
Eyþór á tvær eldri systur, sem hann ólst upp með eins og komið hefur fram. Þá á hann tvær dætur, 26 og 29 ára. „Ég eyði eins miklum tíma og ég get með dætrum mínum. Síðan hef ég gaman af því að ferðast. Í Covid hafa ferðalögin aðallega verið innanlands, ég fór hringinn til dæmis tvisvar í sumar. Það er stórkostlegt að upplifa landið.“ Hann segir annars vinnuna vera aðaláhugamálið. Hann sé í krefjandi starfi og vilji sinna því vel. „Maður er alltaf á vaktinni. Það er ekki hægt að vera í svona starfi nema manni finnist það skemmtilegt. Það gefur því síðan enn meira gildi þegar manni finnst vinnan skila árangri, ef mál leysast og skila árangri fyrir félagsmanninn.“
Eyþór hefur haldið tryggð við íþróttirnar, þótt það sé aðallega úr sófanum nú orðið. „Ég fylgist vel með íþróttum, sérstaklega tuðrusparkinu og þá helst enska boltanum. Við félagarnir gerum stundum mikið úr því, höfum félagslegt samneyti í kringum fótboltann, hittumst oft þrír eða fjórir yfir kaffi og kaffibrauði og gerum eitthvað úr þessu. Það er ekki síður mikilvægt en boltaleikurinn sjálfur. Við erum svo heppnir að við eigum hver sitt uppáhaldslið og þetta verður oft óþrjótandi uppspretta innihalds- og græskulausra rifrilda og ýfinga. Það er helmingurinn af ánægjunni að halda ekki með sama liðinu og geta þvargað og þrasað og skotið hver á annan í kringum leikinn. Það er nauðsynlegur hluti af þessu finnst mér,“ segir Eyþór að lokum.