Gerviverkalýðsfélög, svo sem Virðing, eru gagngert stofnuð til þess að grafa undan réttindum og kjörum launafólks. Í krafti yfirburðastöðu sinnar þvinga sumir atvinnurekendur starfsfólk sitt til þess að skrifa undir ráðningarsamninga sem fela í sér skerðingu á þeim kjörum og réttindum sem kveðið er á um í kjarasamningum atvinnurekenda og stéttarfélaga með samningsumboð á viðkomandi sviði.
Stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar hafnar slíkum aðförum og stendur heilshugar á bakvið aðgerðir Eflingar, Einingar-Iðju og annarra þeirra verkalýðsfélaga sem eiga í baráttu við gul stéttarfélag. Þeirra barátta er í raun barátta verkalýðshreyfingarinnar allrar gegn félagslegum undirboðum og svokölluðum gulum verkalýðsfélögum.