Fyrstu 10 árgangar Hjálms eru komnir á timarit.is. Á árunum 1912-1924 var blaðið handskrifað í innbundna bók og lesið upp í lok félagsfunda. Það er því einungis til í einu eintaki, sem hefur sem betur fer varðveist óskaddað. Nýlega var gerður samningur við Landsbókasafnið um að mynda Hjálm og birta á vefnum timarit.is. Með þessu vinnst tvennt: Annars vegar örugg varðveisla til frambúðar og hins vegar almennur, ókeypis aðgangur að efninu.
Fyrsti ritstjóri Hjálms var Magnús Hallsson. Á fyrstu síðu fyrsta tölublaðs, 25. nóvember 1912 skrifar Magnús nokkur inngangsorð, svohljóðandi:
„Hjer kemur þá í fyrsta sinnið, fyrir sjónir og áheyrn manna og kvenna, hið nýja málgang og unga afkvæmi „Hlífar“ undir nafninu „Hjálmur“. Mönnum mun hafa þótt nafn þetta allvel viðeigandi og rjett tilsvarandi heiti móðurinnar. Gjört mun vera ráð fyrir, að blaðið komi út vikulega til upplesturs, athugunar og umsagnar á fundum félags vors. – Stefnuskrá og tilgangur blaðsins verður einkum og sjerílagi alt það ser lýtur að framför og viðgangi fjelags vors, og eftilvill önnur mál, er kunna að snerta bæjarfélagið í heild sinni og er því æskilegt að sem flestir vildu senda blaðinu stuttar og gagnorðar greinar, er verða mættu að einhverju leiti til uppbyggingar, sem sem ýmsar ráðleggingar, nýjar uppgötvanir til framfara o.s.frv.
Þegar ofangreind mál etv verða fyrir hendi, tekur blaðið þakksamlega á móti fræðandi og skemtandi ritgjörðum, hvers efnis sem vera vill, einnig laglegum skrítlum og gamanvísum ef ekki virðast um of persónulegar eða blekkjandi, til upplestrar við fundarlok körlum þeim og konum til skemtunar er eirð hafa eftir að bíða. Hjálmur vill gjarna, svo sem hver annar hlýðinn viðvaningur taka með þökkum öllum rjettmætum og sanngjörnum leiðbeiningum, er snerta kunna frágang allan á útgáfu hans.“
Fyrsti skammtur er kominn á timarit.is, þ.e. öll handskrifaða útgáfan 1912-1924. Í framhaldinu verða öll tölublöð Hjálms til dagsins í dag sett á sama form.
Hér er hlekkur á fyrsta tölublað.
https://timarit.is/page/7490463#page/n0/mode/2up
Starfsfólki Landsbókasafnsins færum við þakkir fyrir einstaklega snör og fagmannleg vinnubrögð og gott viðmót.