Félagsmenn Hlífar sem starfa eða störfuðu hjá sveitarfélögum eða einkareknum leik- og grunnskólum á síðasta ári eiga rétt á greiðslum úr félagsmannasjóði samningsaðila um næstu mánaðamót.
Vissir þú að í gildandi kjarasamningi SGS við sveitarfélögin er fjallað um Félagsmannasjóð, nánar tiltekið í kafla 13.8. Þar segir:
13.8. Félagsmannasjóður
Launagreiðandi greiðir mánaðarlega framlag í félagsmannasjóð sem nemur 2,2% af heildarlaunum félagsmanna. Úthlutun úr sjóðnum skal fara fram 1. febrúar ár hvert samkvæmt stofnskrá sjóðsins.
Gjaldið var áður 1,5% en er 2,2% frá 1. apríl 2024.
Verkalýðsfélagið Hlíf á aðild að sjóðnum og ber að standa skil á þessum greiðslum til félagsmanna sem starfa eftir þessum samningi 1. febrúar ár hvert fyrir árið á undan. Forsenda þess að hægt sé að greiða úr sjóðnum er að Hlíf hafi bankaupplýsingar félagsmanna sem eiga rétt á að fá greiðslu úr sjóðnum.
Athugið að ekki er tekin staðgreiðsla af upphæðinni sem greidd er út til félagsmanna. Því þarf að greiða skatta af þessum greiðslum eftir á.
Kíktu inn á Mínar síður og kannaðu þínar upplýsingar!
Mínar síður Hlífar eru í raun persónublað sem inniheldur margvíslegar upplýsingar um réttindi félagsfólks. Þar má einnig setja inn eða laga ef þarf umbeðnar upplýsingar fyrir Félagsmannasjóðinn og auðvitað einnig netfang og símanúmer.