Skip to main content

Stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar fordæmir aðgerðir ræstingarfyrirtækja sem fela í sér skerðingu á kjörum, starfsaaðstæðum og öryggi ræstingafólks sem hjá þeim starfar.

Starfsaðstæður og kjör þess fólks sem sinnir þessum störfum eru með því lakasta sem þekkist á íslenskum vinnumarkaði. Í síðustu kjarasamningum var lögð áhersla á að lyfta launum þessa hóps með sérstakri launahækkun umfram almennar hækkanir. Þessar kjarabætur eru ýmis stór fyrirtæki að hafa af starfsfólki sínu, með bellibrögðum.

Margt bendir til þess, að sá sparnaður sem sveitarfélög og aðrir opinberir aðilar telja sig ná með útvistun þessara verkefna, komi niður á þrifum og ástandi eigna til lengri tíma. Þá eru ótalin þau áhrif sem þetta fyrirkomulag hefur á líf og heilsu starfsfólksins, sem í flestum tilvikum eru láglaunakonur af erlendum uppruna. Það er með öllu óboðlegt að ríki og sveitarfélög afsali sér ábyrgð á þeim verkefnum sem þeim ber að sinna og noti það skattfé sem ætlað er að standa undir kostnaði við þjónustu leikskóla, skóla og annarra opinberra stofnana til hagnaðardrifinna einkafyrirtækja. Þannig búa ríki og sveitarfélög í haginn fyrir misneytingu og félagsleg undirboð.

Ábyrgð ríkis og sveitarfélaga á þeirri stöðu sem upp er komin er rík. Þeim ber að taka hana alvarlega. Í lögum um opinber innkaup kemur fram, að verkkaupa er skylt að tryggja kjarasamningsbundin og félagsleg réttindi. Jafnframt hafa þau heimild til að grípa inn í séu kjarasamningsbundin réttindi fólksins sem vinnur verkin á vegum verksala, ekki tryggð.

Verkalýðsfélagið Hlíf tekur undir með ályktun miðstjórnar ASÍ, þar sem það sinnuleysi sem einkennir framgöngu ráðafólks hjá ríki og sveitarfélögum er fordæmt og vekur athygli á þeirri hróplegu hræsni sem einkennir málflutning þessa fólks um inngildingu og virðingu fyrir störfum annarra. Við krefjumst þess að ef fyrirtækin láta ekki af hegðun sinni grípi sveitafélög og ríki inní með aðgerðum, sem þeim er siðferðilega skylt að gera.