ASÍ-UNG leggja áherslu á að aukið lýðræði í atvinnulífinu sé nauðsynlegt til að tryggja vinnandi fólki mannsæmandi lífskjör. Hluti af því sé að tryggja fulltrúum starfsmanna sæti í stjórnum fyrirtækja. Þetta tíðkast á hinum Norðurlöndunum og í allmörgum Evrópuríkjum. Stjórn ASÍ-UNG hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun vegna þessa.
Það er tvennt sem þarf til að stofna og reka fyrirtæki, fjármagn og vinnuafl. Nær allur rekstur þarf fjármagn til að komast á laggirnar og allur rekstur þarf vinnuafl til þess að skapa verðmæti. Bæði fjármagn og vinnuafl eru því nauðsynleg en nú fær aðeins fjármagnið viðurkenningu á sínu framlagi í formi stjórnarsetu fyrirtækja.
Því valdi, sem í stjórnarsetu felst, er svo beitt fjármagnseigendum í hag. Þegar ný tækni sem eykur framleiðni er innleidd er hagvöxturinn notaður til að auka arð fjármagnseigenda, í stað þess að stytta vinnuvikuna eða bæta kjör þeirra sem vinna vinnuna. Þegar illa gengur er starfsfólkinu fórnað og atvinnurekandi ákveður hverjir skulu missa vinnuna til að tryggja fjármagnseigendum arð af rekstrinum. Þegar kemur að hagræðingu í rekstri, eru stjórnendur verðlaunaðir fyrir að halda launum í lágmarki. Þannig auka þeir hagnað fyrirtækisins og arð hluthafa.
Þetta fyrirkomulag hefur ekki aðeins áhrif á vinnumarkaðinn, heldur samfélagið í heild. Fyrirtæki, undir einræði fjármagnsins, mynda hagsmunasamtök og geta þannig eytt sínum fjármunum í fólk sem vinnur við að þrýsta sjónarmiðum fjármagnseigenda á kjörna fulltrúa samfélagsins á Alþingi. Þetta er afl sem vinnandi fólk hefur ekki möguleika á að jafna og grefur því undan lýðræðislegum jöfnuði.
Það er álit ASÍ-UNG að atvinnulýðræði sé nauðsynlegt til að halda uppi heilbrigðu samfélagi og að tryggja vinnandi fólki mannsæmandi lífskjör. Það er kominn tími til að vinnuaflið fá sömu viðurkenningu á sínu framlagi með stjórnarsetu innan fyrirtækja: Að starfsfólk geti kosið sér fulltrúa í stjórn innan þess fyrirtækis sem það starfar. Þetta er ekki róttæk skoðun. Heldur eru þetta réttindi vinnandi fólks víða um heim, þar með talið meiri hluta ESB-ríkja og öllum norðurlöndunum (nema Íslandi).