Miðstjórn ASÍ saknar þess að ekki sé lögð áhersla á að verja opinbera velferðarkerfið og mæta langtímaáskorunum sem felast í húsnæðisvanda, öldrun þjóðar og að styrkja tekjustofna til framtíðar í nýjum stjórnarsáttmála.
Ályktun miðstjórnar ASÍ er að finna hér fyrir neðan:
Á örlagatímum hefur hreyfing vinnandi fólks lagt áherslu á að verja hið opinbera velferðarkerfi, afkomu fólks og auka jöfnuð í gegnum skattkerfið. Í nýjum stjórnarsáttmála, sem gefinn er út þegar verðbólga er mikil og erfiðar aðstæður á húsnæðismarkaði, er lögð áhersla á að vaxa út úr kreppunni í stað þess að auka álögur. Minna fer fyrir þeim ásetningi að verja opinbera velferðarkerfið og mæta langtímaáskorunum sem felast í húsnæðisvanda, öldrun þjóðar og að styrkja tekjustofna til framtíðar.
Sérstaklega veldur það vonbrigðum að loforð sem gefin voru í tengslum við kjarasamningana 2019 eru endurunnin og útþynnt í sáttmálanum. Þar ber hæst loforð um húsnæðismarkaðinn og þann kostnað sem heimilin bera, hvort sem fólk er á leigumarkaði eða eignamarkaði. Stuðningur stjórnvalda við húsnæðisöryggi og tilfærslukerfin mun ráða úrslitum í kröfum verkalýðshreyfingarinnar í aðdraganda kjarasamninga 2022 og 2023.
Hvergi er minnst á að styrkja atvinnuleysistryggingakerfið, setja á leigubremsu á leigumarkað, styrkja vaxtabótakerfið eða skilgreina hlutfall íbúðabygginga á félagslegum grunni. Enn á ný er hins vegar lofað að lögfesta 15,5% framlag launafólks í lífeyrissjóði, loforð sem hefur ítrekað verið svikið, svo og að staðfesta lög gegn kennitöluflakki. Þá hefur kröfum hreyfingarinnar um önnur atriði, svo sem útvíkkun á keðjuábyrgð, framhald átaksins Allir vinna og staðfesting á févíti vegna launaþjófnaðar ekki verið mætt í sáttmálanum.
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands fagnar því að nú sé kominn til starfa félags- og vinnumarkaðsráðherra sem lýsir áherslum nýrrar ríkisstjórnar á vinnumarkaðsmál. Gríðarlegar áskoranir eru framundan vegna endurnýjunar kjarasamninga næstu tvö árin og réttlátra umskipta vegna tækni- og loftslagsbreytinga. Þar mun öllu máli skipta að vera í góðum tengslum við verkalýðshreyfinguna, verja sjálfstæði hennar og slagkraft og styrkja möguleika fólks til starfsmenntunar og þátttöku á heilbrigðum vinnumarkaði.
Miðstjórn Alþýðusambandsins fagnar staðfestingu á auknu samráði við vinnumarkaðinn og er tilbúið til viðræðna um bætt verklag í kjaraviðræðum. Verkalýðshreyfingin mun hins vegar berjast gegn öllum hugmyndum um að auka völd ríkissáttasemjara sem lúta að takmörkun verkfallsréttar eða samningsumboðs og sjá til þess að þær munu ekki ná fram að ganga.
Alþýðusambandið er tilbúið í alla samvinnu sem lýtur að því að efla sí- og endurmenntun og auka tækifæri fólks til menntunar. Þrátt fyrir yfirlýsingar hefur skort aðgerðir í málaflokknum. Í raun hefur dregið úr stuðningi við framhaldsfræðslu síðustu ár og áratugi svo ekki verður við unað á tímum örra breytinga á vinnumarkaði. Þá er viðvarandi áskorun að vinda ofan af ótryggum ráðningasamböndum, uppgangi gulra stéttarfélaga og gera fólki kleift að njóta þeirra réttinda sem verkalýðshreyfingin hefur byggt upp áratugum saman.