Skip to main content

Miðstjórn ASÍ telur að ríkisstjórn og Seðlabanki stundi varðstöðu fyrir fjármagnseigendur, bankakerfið og valdastéttina og velti kostnaðinum yfir á launafólk. Þetta kemur m.a. fram í ályktun miðstjórnar frá í gær, en hún fer hér á eftir.

Ótrúverðug peningastefna gegn þjóðarhag

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands ályktar að handhafar peningastefnu og opinberrar fjármálastefnu vinni markvisst gegn hagsmunum almennings og stundi þess í stað varðstöðu fyrir fjármagnseigendur, bankakerfið og valdastéttina. Miðstjórn telur þá ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands að halda stýrivöxtum óbreyttum áfellisdóm yfir stefnu og aðgerðum bæði Seðlabankans sjálfs og ríkisstjórnarinnar.

Stýrivextir Seðlabankans hafa nú verið óbreyttir í 9,25 prósentum í meira en ár, sem hefur valdið ómældum skaða fyrir almennt launafólk, einkum í gegnum verðlag og húsnæðiskostnað. Miðstjórn minnir á að aðilar vinnumarkaðarins fóru eftir forskrift Seðlabankans við gerð síðustu kjarasamninga. Launafólk tók á sig kjaraskerðingar í formi hóflegra launahækkana á verðbólgutímum. Þetta var gert í samræmi við þær fullyrðingar forystumanna Seðlabankans að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði væru stærsti óvissuþátturinn í íslensku efnahagslífi. Einungis með afar hófsömum kjarasamningum yrði unnt að vinna á verðbólgu og lækka vexti.

Nú er orðið ljóst að ekkert af þessu hefur gengið eftir. Eftir stendur ótrúverðug peningastefna sem Seðlabankinn þarf að axla ábyrgð á. Þess í stað eru færðar fram mótsagnakenndar og ruglingslegar skýringar, m.a. á þenslu og á skuldastöðu heimilanna. Þannig er því til dæmis haldið fram að engin teikn séu á lofti um að heimili landsmanna eigi í vaxandi erfiðleikum með að standa undir húsnæðisskuldum. Hið rétta er að fólk hefur í stórum stíl verið þvingað til að færa sig úr óverðtryggðum lánum aftur yfir í verðtryggð lán til að mæta auknum kostnaði vegna viðvarandi hárra stýrivaxta. Með því aukast í raun skuldir lántakenda til framtíðar á meðan gróði lánastofnana er tryggður.

Miðstjórn telur að samspil peningastefnu og opinberrar fjármálastefnu hafi misheppnast. Stjórnvöld hafa ekki axlað ábyrgð á húsnæðisvandanum sem er bæði viðvarandi og vaxandi. Ferðaþjónusta fær að þróast að mestu stefnulaus sem hefur gert að verkum að almenningur er beinlínis að stunda fyrirgreiðslu með ferðaþjónustunni vegna afleiðinga af þenslu og spennu á húsnæðismarkaði.

Eðlilegt er að fólkið í landinu spyrji hvað þurfi til að Seðlabankinn fáist til að fallast á lækkun stýrivaxta. Svarið er líklega það að hið háa vaxtastig þjónar hagsmunum fjármagnseigenda og lánastofnana eins og siðlaus hagnaður bankanna er skýrt dæmi um. Hávaxtastefna á verðbólgutímum er afgerandi birtingarmynd niðurskurðarstefnu og þjónar þeim tilgangi helstum að verja fjármagnseigendur og setja byrðarnar og óvissuna á herðar venjulegs fólks. Sama má segja um aðgerðir sem miða að því að draga úr velferðarþjónustu, vanrækja innviði og auka gjaldtöku.

Verkalýðshreyfingin kallar eftir að stjórnvöld taki afstöðu með almenningi í landinu og grípi til afgerandi aðgerða, til lengri og skemmri tíma, sem miðast að því að lækka framfærslukostnað launafólks. Slíkar aðgerðir þurfa að miða að því að uppræta kerfislæga verðbólguhvata sem hafa verið byggðir inn í efnahagslífið, t.d. á sviði húsnæðismála og fákeppni, og að tryggja réttláta tekjuöflun af hálfu hins opinbera.

Launafólk getur ekki unað við núverandi ástand og aðgerðaleysi.