Undanfarið hefur nokkuð verið rætt um húsnæðismál Hlífar og þá ætlan félagsins að taka til eigin nota húsnæði í eigu félagsins, að Flatahrauni 3. Ár er síðan bænum voru kynnt áform þess efnis. Málið var til umræðu á síðasta bæjarstjórnarfundi, þar sem ýmis orð voru látin falla um stjórn og starfsfólk félagsins sem lítill sómi var að.
Stjórn Hlífar samþykkti eftirfarandi á fundi sínum í gær:
Stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar harmar umræður og bókun á síðasta bæjarstjórnarfundi um húsnæði félagsins að Flatahrauni 3 og þau áform félagsins að taka það til eigin nota. Félagið kynnti embættismönnum bæjarins fyrir ári síðan þörf sína og fyrirætlan í þessu efni. Þetta hefur verið ítrekað nokkrum sinnum á fundum með embættismönnum, þar á meðal bæjarstjóra. Á þessum fundum hefur alltaf komið fram, að ástæða þess að ekki sé enn lögð fram formleg uppsögn, sé til að gefa bænum svigrúm til að leysa húsnæðismál Félags eldri borgara í góðum friði með góðum fyrirvara. Sá fyrirvari er nú orðinn heilt ár, án þess að nokkur lausn sé í sjónmáli. Því er félaginu nauðugur kostur að stíga fram með ákveðnari hætti, enda hamla núverandi aðstæður í húsnæðismálum félagsins eðlilegri starfsemi þess. Félagið hefur tvöfaldast að stærð undanfarin fjögur ár.
Af umræðum í bæjarstjórn var helst að skilja, að málið kæmi upp fyrst nú, án nokkurs aðdraganda. Jafnframt var látið að því liggja, að á bak við lægju annarlegar hvatir forystu Hlífar og starfsfólks og einhvers konar samsæri félagsins og hluta bæjarstjórnar til að koma höggi á meirihluta í bæjarstjórn. Hið sanna er, að forysta Hlífar hefur ekki rætt þetta mál við neina kjörna fulltrúa (utan bæjarstjóra), fyrr en daginn fyrir fund bæjarstjórnar, að tveir fulltrúar Samfylkingarinnar óskuðu eftir fundi með forystu félagsins, til að fá upplýsingar um aðdraganda málsins. Það er nú allt plottið.
Umræður um forystu félagsins og starfsfólk, eins og fram fóru í bæjarstjórn og ummæli sem þar féllu, eiga sér tæpast mörg fordæmi og eru fyrir neðan virðingu kjörinna fulltrúa í beinni útsendingu. Stjórn Hlífar harmar þau og biðst undan því að félagið verði dregið inn í slíkar umræður í framtíðinni.
Að lokum bendir stjórn félagsins bæjarstjórn á, að það getur tæpast talist góð samningatækni að hvetja viðsemjanda og óska einhvers af honum, en hreyta um leið í hann ónotum og dylgja jafnframt um heilindi hans. Að slá á útrétta hönd er sjaldnast góð leið til að auka samningsvilja.