Skip to main content

Á vef Hafnarfjarðarbæjar birtist seint í gær yfirlýsing vegna ákvörðunar Hlífar um atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun í leikskólum bæjarins. Það sem er langmerkilegast við þessa yfirlýsingu, er að í henni er ekki vikið einu orði að því um hvað deila Hlífar við bæinn snýst. Ekki einu orði!!

Í yfirlýsingunni kemur fram að leikskólastarfi og starfsumhverfi hafi verið umbylt á síðustu árum. Það er hárrétt. Gerðar eru mun ríkari kröfur til almenns starfsfólks hvað varðar fagmennsku og ábyrgð. Laun hafa hækkað í kjölfarið, en það var ekki vegna góðmennsku þeirra sem stjórna Hafnarfjarðarbæ, heldur vegna þrotlausrar baráttu félagsins. Stærsti áfanginn í hækkun launa náðist í samningi sem gerður var haustið 2023. Það er því rétt að laun almenns starfsfólks í leikskólum eru almennt hærri í Hafnarfirði en í flestum öðrum sveitarfélögum eftir umbyltinguna. Deilan stendur ekki um þetta.

 

Deilan snýst ekki um laun

Deilan milli Verkalýðsfélagsins Hlífar og Hafnarfjarðarbæjar snýst ekki um laun. Hún snýst um kröfuna um undirbúningstíma. Eftir umbyltinguna eru gerðar mun meiri kröfur til almenns starfsfólks en áður, hvað varðar faglegt starf með börnum og ábyrgð á börnum. Við gerum kröfu um að fólkið okkar sem sinnir faglegu starfi, fái tækifæri til að undirbúa sig eins og aðrir sem sinna faglegu starfi í leikskólum. Við gerum einnig kröfu um að þegar ekki tekst að sinna undirbúningi innan dagvinnumarka (t.d. vegna undirmönnunar), þá hafi starfsfólkið tækifæri til að sinna undirbúningi í yfirvinnu og fái greitt samkvæmt því. Þetta þarf ekki að kosta bæinn neitt aukalega, ef skipulag leikskóladagsins og mönnun eru í lagi, þá á að vera hægt að sinna þessum verkefnum innan dagvinnumarka.

Því er haldið fram í yfirlýsingu bæjarins að eftir að tókst að knýja fram launahækkun vegna aukings álags og umfangs, hafi reynst auðveldara að fá fólk til starfa. Það er vafalaust rétt, enda bentum við bænum á að leiðin til að fjölga fólki væri að hækka laun og gera starfið eftirsóknarverðara. Það sama kemur til með að gilda um udirbúningstímana. Áhugi á störfum í leikskólum Hafnarfjarðar mun aukast.

 

Ekki leyst með sjálfshóli

Semsagt: Það sem stendur út af í deilu Hafnarfjarðarbæjar og Hlífar eru undirbúningstímar og að þeir fallli ekki niður vegna manneklu, eins og nú gerist alltof oft. Þessi krafa hefur staðið frá upphafi viðræðna snemma árs, en Hafnarfjarðarbær hefur ekki lagt fram neitt bitastætt til að liðka fyrir. Svo virðist sem þau geti ekki einu sinni sagt orðið undirbúningstími.