Miðstjórn ASÍ samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum í dag.
Flugfélagið Play ætlar að bjóða lægri flugfargjöld með því að greiða starfsfólki sínu lægri laun en þekkist á íslenskum vinnumarkaði. Grunnlaunin eru töluvert undir grunn atvinnuleysisbótum. Sá samningur sem Play hefur skilað til ríkissáttasemjara er óundirritaður og ekki ljóst hvernig hann er til kominn. Þó er ljóst að hann var gerður áður en hafist var handa við að ráða inn flugfreyjur og -þjóna og enn fremur er ljóst að Play fjármagnar stéttarfélagið (ÍFF) sem gerir þennan samning. Það er því með engu móti hægt að segja að Play fari eftir hefðum og reglum á íslenskum vinnumarkaði og með því að neita að gera kjarasamning við Flugfreyjufélag Íslands segir félagið sig úr samfélagi hins skipulagða vinnumarkaðar. Við það verður ekki unað og er félagið að boða til ófriðar og deilna um ófyrirsjáanlega framtíð ef ekki verður gengið til raunverulegra kjarasamningsviðræðna við félag sem sannanlega er skipulagt af þeim sem eiga að vinna samkvæmt kjarasamningnum.
Í samningi Play við ÍFF, sem óljóst er af hverjum er undirritaður, eru lægstu laun 266.500 krónur. Til samanburðar eru lægstu laun flugfreyja og -þjóna hjá Icelandair 307.000, atvinnuleysisbætur eru 307.430 krónur og lægsti taxti verkafólks er 331.735 krónur. Flugtímar innifaldir í grunnlaunum eru fleiri hjá Play en hjá Icelandair, greiddir yfirvinnutímar færri, greiðslur í lífeyrissjóð eru lægri, dagpeningar lægri og sömuleiðis bifreiðastyrkur og desemberuppbót svo eitthvað sé nefnt. Í samningnum er ekki kveðið á um framlög til starfsendurhæfingar, í orlofssjóð, starfsmenntasjóð eða sjúkrasjóð og ekki gert ráð fyrir launagreiðslum vegna veikinda barna.
Allar stoðir í kjaraumhverfi launafólks á Íslandi eru virtar að vettugi.
Alþýðusamband Íslands krefst þess að Play gangi til kjaraviðræðna við raunverulegt stéttarfélag flugfreyja og -þjóna á Íslandi – Flugfreyjufélag Íslands – og ætlast jafnframt til þess að Samtök atvinnulífsins, sem Play er hluti af, beiti sér fyrir raunverulegum kjarasamningi.
Alþýðusamband Íslands hvetur landsmenn til að sniðganga félagið þangað til það hefur sýnt að það ætli að vera hluti af íslenskum vinnumarkaði og bjóða starfsfólki sínu kaup og kjör sem gilda hér á landi.
Alþýðusamband Íslands hvetur lífeyrissjóði og aðra fjárfesta að sniðganga félagið sömuleiðis en félagið hefur reynt að gera sig gildandi gagnvart fjárfestum með því að stæra sig af óboðlegum launakjörum.
Alþýðusambandið telur vafa vera um lögmæti þess samnings sem Play vísar til sem kjarasamnings og mun beita þeim úrræðum sem tæk eru samkvæmt lögum nr. 80/1938 til þess að verja grunnréttindi launafólks á Íslandi og knýja á um kjarasamning.