Hlíf og þrjú verkalýðsfélög á suðurnesjum hafa tekið upp samstarf um vinnustaðaeftirlit, þ.e. Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis, Verkalýðsfélag Grindavíkur og Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis.
Alise Lavrova hefur verið ráðin starfsmaður eftirlitsins, en hún hefur víðtæka reynslu af vinnustaðaeftirliti. Um er að ræða tímabundið samstarfsverkefni, sem hægt er að framlengja ef þörfin verður til staðar í lok tímabils og félögin hafa hug á að vinna áfram saman.
Vinnustaðaeftirlitið er hluti af „Vinnustaðaeftirliti ASÍ“ og starfar náið með öðrum þátttakendum í því. Í því felst m.a., að kerfi ASÍ er nýtt til skráningar og utanumhald um mál og starfsmaður tekur virkan þátt í fundum og samráði með öðrum félögum.
Eftirlitið hefur bækistöð á skrifstofu Hlífar, en starfsmaðurinn verður einnig með aðstöðu á skrifstofum hinna félaganna þegar fram fer eftirlit á þeirra félagssvæðum.
Félögin binda miklar vonir við árangur af samstarfinu.