Skip to main content

Fyrr í þessum mánuði voru liðin 115 ár frá því að Verkmannafélagið Hlíf var stofnað í Gúttó. Í síðasta Hjálmi voru birt nokkur ljóð sem félaginu hafa verið send á nokkrum afmælum í gegnum tíðina.

Ljóð erfiðisvinnumanns til félagsins síns

 

Fyrir nokkru áskotnaðist félaginu handrit með ljóði, ortu til Verkamannafélagsins Hlífar á 40 ára afmæli félagsins. Handritið kom í ljós þegar unnið var að breytingum á húsnæði þar sem Alþýðuprentsmiðjan hafði verið til húsa og verið var að henda dóti sem tilheyrði henni. Þetta mun hafa verið á áttunda áratug síðustu aldar. Hallbjörn Þorbjörnsson, smiður, sem fann handritið, færði félaginu það nýlega til varðveislu. Ekki er vitað til þess að ljóðið hafi áður birst opinberlega.

Undir er skrifað höfundarnafnið Feigur Fallandason, en eins og mörgum er kunnugt, er það heiti ljóðs eftir Bólu-Hjálmar, sem hefst þannig:

Mér er orðið stirt um stef

og stílvopn laust í höndum, …

Höfundurinn á bakvið nafnið mun vera Benjamín Ástsæll Eggertsson, sem fæddist á Bíldshóli á Skógarströnd árið 1893, sonur vinnuhjúa á staðnum. Þaðan var hann fluttur tveggja daga gamall til vandalausra, að Heggsstöðum í Hnappadalssýslu þar sem hann var í nokkra mánuði. Ólst hann síðan upp til tvítugs að mestu hjá foreldrum sínum að Skiphyl í Mýrasýslu. Eftir það stundaði hann verkamannavinnu í Hafnarfirði og sjómennsku í um tvo áratugi, þar til hann veiktist svo alvarlega að hann var rúmfastur á sjúkrastofnun þann þriðjung ævinnar sem hann átti ólifaðan.

Flokkur þinn sendir þér beztu kveðjur

Þjóðviljinn birti stutta grein og viðtal við Benjamín á sextugsafmæli hans, 24. september 1953. Umfjöllunin, sem er líklega eftir Jón Bjarnason, fréttastjóra, hefst á svohljóðandi kveðju frá Einari Olgeirssyni:

Flokkur þinn sendir þér beztu kveðjur og heillaóskir á sextugsafmælinu. Hann þakkar þér, að þú hefur, veikur, verið fullhraustum til fyrirmyndar um fórnfýsi og áhuga.

Í viðtalinu lýsir Benjamín ævi sinni á þennan veg:

Fæddur er ég fátækur,

fæddur til að stríða

fæddur er ég flækingur;

fæddur til að líða.

 

Vopn sem aldrei geigaði

Fyrrum skipsfélagi Benjamíns, Árni Guðmundsson, skrifar einnig grein í Þjóðviljann á sextugsafmælinu. Hann segir frá því, að hann hafi ráðið sig í skipsrúm í Grindavík veturinn 1918. „Þá voru ekki vélar í skipunum til að létta erfiðið, heldur voru árarnar knúðar eftir því sem hver hafði mannskap til.” Árni segist fljótt hafa tekið eftir einum skipsfélaganum, sem hafi borið af öðrum að dugnaði, glæsileik og harðfengi. „Hann varð brátt sjálfkjörinn foringi hásetanna og allir fylgdu honum í hverju máli og allt sem hann stakk upp á var samþykkt í einu hljóði, hélt hann jafnan svo á málunum að skipshöfnin hafði virðingu af. Hann var jafnan skjól og skjöldur minn og annarra, sem minnimáttar voru, ef eitthvað var sveigt af þeim, þá var honum að mæta. Hann var alltaf tilbúinn að taka svari okkar. Allir vissu að jafnframt því, sem hann var ramur að afli, átti hann vopn sem hann brá stundum og aldrei geigaði. Það voru hinar bráðsnjöllu ferskeytlur og vísur sem urðu fleygar. Það voru fáir sem vildu verða skotspænir hans á þeim vettvangi. … Nú er Benjamín, þessi hrausti maður, búinn að liggja í rúminu yfir 20 ár, oft sár þjáður, einn af mörgum sem hin mikla þrælkun á togurunum, meðan lítill eða enginn hvíldartími var lögboðinn, hefur rænt heilsu og lífshamingju.”

Benjamín hélt áfram að yrkja eftir að hann varð rúmfastur og líklega af meiri alvöru og dýpt en meðan hann var á sjónum og kastaði fram tækifærisvísum. Kveðskapurinn var oft helgaður hörðum lífskjörum, misskiptingu auðs og baráttunni fyrir bættum kjörum alþýðu fólks. Benjamín gaf út tvær ljóðabækur, Arfaklær og Berjaklær. Í þeirri síðari, sem kom út á sextugsafmælinu, er að finna annað ljóð ort til félagsins, kveðju á 45 ára afmæli þess. Það er því ljóst, að Benjamín hefur haft sterkar taugar til Hlífar.

 

 

Baráttuljóð undir sterkum áhrifum stórskálda

Fyrra ljóðið, sem fannst í handriti eins og áður kemur fram, er ort í anda baráttuljóða þessa tíma. Það ber þess nokkur merki að hafa ekki verið fullfrágengið. Í því má merkja áhrif frá skáldum eins og Þorsteini Erlingssyni og Davíð Stefánssyni.

 

Verkamannafélagið Hlíf 40 ár

 

Eitt um skammdegiskvöld,

þá var skugganna fjöld,

og þá skein ekki lífssól í verkamanns hjarta.

Því hin stritandi hönd

var þá bundin í bönd

og svo beygð undir hagsmuni ræningjans svarta.

Þá framsæknu mennirnir fundar til boða,

þeir fjöldanum hugðust nú bjarga úr voða.

Þá var alþýðan djörf, bætt var öreigans þörf

því um áranna fjöld,

sló á mannfélagshimininn roða.

 

Við það stofnenda spor

rann upp verkalýðs vor

og það vígið, sem kúgarinn óttast og hatar

nefnt var félagið Hlíf, gaf þá fátækum líf

og þá framtíð og eining, sem tíminn ei glatar.

Um tugina fjóra nú félagið hefur

því frækorni sáð, sem að ávöxtinn gefur.

Því hin vinnandi stétt, á sinn ríkjandi rétt

til að ráða þeim málum

er hagmunasamvinnan krefur.

 

Þeim skal merkið hátt reist,

fólk úr martröð gat leyst

Og fyrst mótuðu grunninn í byggingu slíka!

Þá var lýðurinn sljór, þá var loddarinn stór

og svo launin öll skömmtuð úr höndum þess ríka.

Að sameina fólkið á sundrungar dögum

var sannkallað afrek á verkalýðs högum,

því sú klafaða þjóð finnst oft kjörin sín góð

sem til kvalar og hungurs er borin

að þorparans lögum.

 

Nú er alþýðan frjáls,

jafnt til mennta og máls,

og til mannréttar getin á pappírnum hvíta.

Gef ei baráttu hlé.

Til er vargur í vé

og hann verkalýðssamtökum reynir að slíta.

Því afturhalds gripurinn ekki finnst dauður,

Sá eitrar og brennir hvert mannlífsins hauður.

Svo, hið fertuga barn;

lýs við frelsisins arn

sem einn framvörður réttlætis.

Bræðralags hugsjón er auður.

 

Fram á hamingju tíð

kný ég hafnfirzkan lýð,

til að hugleiða kenningar foringjans milda.

Hann sem meistari beið

og sem mannvinur leið

þó veit mannkynið ei hvað er boðorð og skylda.

Að allir menn losni frá örbirgð og vinni

ég efast um jöfnuð hjá þjóðinni minni.

Ég er krankur og veill

en í kærleika heill

mun ég koma til barnsins

með óskir og vonir í sinni.

 

Ljós í batnandi heim

ver með bróðurnum þeim

er vill bæta vort þjóðlíf af einlægu hjarta.

Burt með lyginnar sigð

upp með dáðir og dyggð

svo vor drottningin leiðist í hásætið bjarta.

Vér allir því heitum Íslandsvinir góðir

í eining að lifa systir kær og bróðir

allt skal fósturjörð veitt

ei skal flokksvaldi beitt

en vér fórnum þér öllu

vor tignaða heilaga móðir.

 

 

 

 

Kveðja á 45 ára afmæli Hlífar

Eftirfarandi ljóð birtist á forsíðu fyrsta tölublaðs Hjálms árið 1952, en blaðið var að mestu tileinkað 45 ára afmæli félagsins. Það er einnig að finna í ljóðabók Benjamíns – Berjaklær – sem kom út á sextugsafmæli hans árið 1953.

Kveðja

til Verkamannafélagsins „Hlíf” Hafnarfirði á 45 ára afmæli þess í janúar 1952

 

Heillaskeyti „Hlíf” ég sendi

hálffimmtugri nú í dag.

Alla tíma stöðug standi,

stéttar sinnar bæti hag.

Dag og nótt sé vel á verði,

virði, styrki bræðralag.

Allar mínar óskir beztu

eru nú í þessum brag.

 

Samtök hafa sýnt, hvað geta,

sameinaðir verkamenn.

Ósigrandi er sú fylking,

undan lætur valdið enn

forherta, sem feigan vilja

félagsskapinn allan senn.

Einvíg þó við auðvald hái,

aldrei burt af hólmi renn.

 

Sundrunganna sendi öflin

sjötugt út á djúpið „Hlíf”.

Hagsmunanna gerið gæta

gott í stormi eiga „Hlíf”.

Eining tengi alla saman,

allir styðji félag „Hlíf”.

Verði hennar veldið stóra

verkamannsins trausta „Hlíf”.