Skip to main content

Um alllangt skeið hefur ríkt mikil og sívaxandi óánægja meðal starfsfólks í leikskólum Hafnarfjarðar. Hópurinn telur sig mæta miklu skilnings- og virðingarleysi stjórnenda í fjölmörgum málum sem snerta störfin.

Eftir að Efling og Reykjavíkurborg gerðu kjarasamning, í kjölfar harðra átaka, hafa nágrannasveitarfélögin gripið til ýmissa aðgerða til að brúa bilið sem skapaðist milli kjara starfsfólks í leikskólum í Reykjavík og í þessum sveitarfélögum. Öll nema Hafnarfjörður.

Óánægja starfsfólks kemur fram í könnunum sem gerðar eru reglulega meðal félagsmanna Hlífar og hefur óánægjan vaxið undanfarin misseri. Á fundum með trúnaðarmönnum starfsfólks í leikskólum bæjarins hefur ítrekað komið fram að ástæðuna megi ekki síst rekja til þeirrar sérstöðu Hafnarfjarðarbæjar að vilja ekki brúa launabilið. Lágum launum fylgir mönnunarvandi og þegar ekki er fólk til að sinna öllum störfum bitnar það með auknu álagi á þeim sem eru til staðar.

Þetta er skemmtilegasta starf í heimi – en stjórnendur bæjarins eru að eyðileggja það.

Ummæli í könnun

Fimm yfirvinnutímar

Samkvæmt fyrirliggjandi fjárhagsáætlun fyrir árið 2022, er gert ráð fyrir að allt starfsfólk í leikskólunum fái greiddar 5 yfirvinnustundir ofan á mánaðarlaun. Yfirvinnutímar sem hafa verið greiddir úr svokölluðum yfirvinnupotti, fyrir tilfallandi vinnu utan hefðbundins vinnutíma, verða felldir niður. Útfærslan hefur verið misjöfn eftir skólum. Sums staðar hafa verið starfsmannafundir utan dagvinnutíma, einu sinni í mánuði í sumum skólum en sjaldnar í öðrum. Þetta hafa oftast verið um tveir tímar. Þær greiðslur falla niður, en fimm fastir tímar koma í staðinn. Verði fjárhagsáætlunin samþykkt óbreytt, þýðir það að almennur leikskólastarfsmaður í Hafnarfirði fær að jafnaði 30 – 35.000 krónum minna í laun en starfsmaður í sams konar starfi í Reykjavík. Það munar um minna fyrir fólk á lægstu laununum.

Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir að þeir starfsmenn sem eiga barn í leikskóla fái 75% afslátt af leikskólagjöldum. Þetta kemur sér vissulega mjög vel – en einungis fyrir þennan hóp, sem er ekki fjölmennur. Ekki liggur á lausu hve margir starfsmenn eða hve stór hluti starfsfólksins mun njóta þessarar kjarabótar. Samkvæmt lauslegu mati, sem er meðal annars byggt á því sem trúnaðarmennirnir segja, eru þetta á bilinu 10-15% starfsfólks. Væntanlega er gripið til þessarar ráðstöfunar til að reyna að fjölga starfsfólki. Óskandi væri að það bæri árangur, en þá þarf líka að taka með í reikninginn að það hefur áhrif á fjölda og aldurssamsetningu barnahópsins í leikskólunum.

Eftir stendur stærsti starfsmannahópurinn: Þeir starfsmenn sem eiga ekki börn á leikskólaaldri – og eru flestir búnir að vinna hjá Hafnarfjarðarbæ í 5-10 ár eða jafnvel lengur.

Okkur er sagt að við verðum að láta þetta ganga. Það megi alls ekki senda börn heim.

Trúnaðarmaður í leikskóla

Óánægjan birtist í könnunum

Í könnun sem Verkalýðsfélagið Hlíf gerði nýverið meðal starfsfólks í leikskólum kemur staðan mjög skýrt fram. Næstum allir svarendur í könnuninni segja álag hafa aukist á undanförnum sex mánuðum.

Spurt var hversu algengt eða óalgengt væri að leikskóladeildin sem viðkomandi starfar á, væri fullmönnuð. Samkvæmt svörunum, segir ríflega fjórðungur að algengt sé að hún sé fullmönnuð, en um 55% segja það óalgengt, sem lýsir mjög alvarlegri stöðu.

Spurt var hvort upp hafi komið sú staða á deild svaranda á undanförnum sex mánuðum að deild hafi verið lokað vegna manneklu. Næstum fjórir af hverjum tíu segja að deild hafi verið lokað, en helmingurinn segir nei. Einn af hverjum tíu segist ekki vita það.

Þá var spurt hvort upp hefðu komið þær aðstæður í leikskólanum á síðustu sex mánuðum að rétt hefði verið að loka deild svarandans, en það hafi samt ekki verið gert. Þá dregst upp annars konar mynd. Um tveir af hverjum þremur svarendum segja þannig aðstæður hafa skapast, en um 15% segja það ekki hafa gerst.

Þetta er grafalvarlegt. Of fátt starfsfólk þýðir aukið álag á þá sem eru á staðnum. Það getur hreinlega skapað hættu, bæði fyrir börnin og starfsfólkið, ef svo fáliðað er á deildinni að rétt sé að loka. Algengt er að brugðist sé við með því að fara með börnin út, enda sé auðveldara að halda utan um stóran hóp barna með fáu starfsfólki úti en inni. Fyrir þessu eru vitaskuld takmörk og getur ekki gengið til lengdar.

Spurt var hvort viðkomandi hefði velt fyrir sér á síðustu sex mánuðum að skipta um starf vegna álags. Niðurstöðurnar eru sláandi.

Ríflega tveir af hverjum þremur segjast hafa íhugað að skipta um starf, en fjórðungur hefur ekki íhugað það. Vitað er að talsvert rót er á starfsfólki og fjölmargir hafa farið til starfa í öðrum sveitarfélögum.

Nokkrir áhrifaþættir til viðbótar við kjörin

Auðvitað er margt sem ýtir undir óánægju starfsfólks leikskóla og erfiðleika við að manna störfin í skólunum. Augljóst er þó, að lök kjör eru meginorsökin. Það er þó fleira sem eykur álagið frá degi til dags og má þar nefna:

  • Vinnutímastyttingin. Í kjarasamningum starfsfólks í leikskólum eru ákvæði um styttingu vinnutímans, mismunandi eftir samningum. Aftur á móti er ekki gert ráð fyrir kostnaði við nauðsynlega viðbótarmönnun, þannig að starfsfólk hefur þurft að „láta hlutina ganga“ með eigin útsjónarsemi. Ef starfsmaður er ekki á staðnum (vegna vinnutímastyttingar) og enginn kemur í staðinn, þá segir það sig sjálft að álagið eykst á þá sem til staðar eru.
  • Undirbúningstímar. Í kjarasamningum háskólamenntaðs starfsfólks leikskólanna er gert ráð fyrir nokkrum fjölda undirbúningstíma. Algengt er að þeir séu á bilinu 7-10 í hverri viku. Augljóst er að með því minnkar sá tími sem viðkomandi starfsmenn eru inni á deild með börnunum.
  • Námssamningar. Allnokkrir starfsmenn eru á svokölluðum námssamningum. Þeir gera meðal annars ráð fyrir að starfsmenn geti stundað nám sem nýtist í starfi og skuldbindi sig um leið til að starfa fyrir Hafnarfjarðarbæ í nokkurn tíma, bæði meðan þeir eru í námi og eftir að því lýkur. Þetta er mjög gott úrræði til að fjölga menntuðu starfsfólki í leikskólunum. Sá böggull fylgir þó skammrifi, að þessu fylgir allnokkur fjarvera og sérstök verkefni sem gera að verkum að viðkomandi eru ekki með börnunum. Fjarveran eykur álag á hina sem eftir eru.
  • Veikindi. Þótt félagið hafi ekki fengið umbeðnar upplýsingar um tíðni veikinda starfsfólks í leikskólum, leikur enginn vafi á að tíð og langvarandi veikindi auka mjög á mönnunarvandann.
  • Covid. Fyrir liggur að Covid-faraldurinn hefur aukið enn á vandann. Upp hafa komið ýmsar aðstæður sem gera starfsfólki og foreldrum enn erfiðara fyrir en við eðlilegar aðstæður. Þetta hefur aukið álag á starfsfólk, sem hefur tekið á sig að leysa vandann frá degi til dags, án sérstakrar umbunar.

Fulltrúar bæjarins segja að tekið hafi verið tillit til allra þessara þátta í þeim mönnunarlíkönum leikskóla sem unnið er eftir. Þar sem mörg þessara atriða, svo sem vinnutímastyttingin, námssamningarnir og fjölgun undirbúningstíma, eru tiltölulega ný af nálinni, ætti að vera hægt að sjá þess stað í fjölda stöðugilda og starfsfólks. Þegar rýnt er í töflu sem fylgir greinargerð með fjárhagsáætlun, þar sem sýnd eru stöðugildi og fjöldi starfsfólks í hverjum leikskóla, ætti að sjást umtalsverð aukning. Þegar sambærilegar töflur frá fyrri árum eru bornar saman við töfluna með fjárhagsáætlun ársins 2022, ætti að sjást merkjanlegur munur, til dæmis þegar undirbúningstímum fjölgaði og þegar vinnutímastyttingin tók gildi. Helstu sjáanlegu breytingarnar á milli ára virðast aftur á móti einkum tengjast fjölda og aldurssamsetningu barnanna í hverjum leikskóla.

Gallupkönnun

Gallup er að ljúka vinnu við árlega könnun meðal félagsmanna Hlífar. Í könnuninni er meðal annars sett fram fullyrðing, um að of fátt starfsfólk sé á vinnustaðnum til að hægt sé að sinna eðlilegri þjónustu. Í hópum starfsfólks á almennum vinnumarkaði eða hjá ríkinu eru um 40% svarenda mjög eða fremur sammála fullyrðingunni. Hjá starfsfólki sveitarfélaga (þar sem starfsfólk í leikskólum Hafnarfjarðar er í miklum meirihluta) er hlutfallið ríflega 75%. Það þýðir að um þrír af hverjum fjórum telja of fátt starfsfólk á vinnustaðnum til að hægt sé að sinna eðlilegri þjónustu. Þetta er í fullkomnu samræmi við okkar eigin kannanir og upplifun starfsfólks eins og henni er lýst af trúnaðarmönnum.

Bæjarstjórinn ætti að prófa að vinna í leikskóla einn dag. Þá kannski skildi hún hvað við erum að tala um.

Ummæli í könnun

Við erum að gefast upp. Það verður enn meiri flótti á næstunni ef ekkert verður gert.

Ummæli í könnun

Foreldrar barnanna standa með okkur, enda horfa þeir upp á þetta ástand dag eftir dag.

Trúnaðarmaður í leikskóla

Vinnutímastyttingin

Í könnuninni sem Hlíf gerði fyrr í haust var meðal annars spurt um vinnutímastyttinguna, hvernig hún hefði tekist og hvort fólk teldi hana mikilvæga. Um 85% segja að hún skipti mjög eða fremur miklu máli. Um helmingur svarenda segist ánægður með útfærsluna, en ríflega þriðjungur óánægður. Svarendum var gefið tækifæri til á að skrifa athugasemdir og hugleiðinar. Langflestar þeirra snerust um mönnun, að erfitt væri að koma styttingunni við vegna skorts á starfsfólki. Sumir sögðust hreinlega fá samviskubit við að skilja samstarfsfólkið eftir þegar þeir tækju út áunna vinnutímastyttingu.

Verk að vinna

Fulltrúar Hlífar hafa fundað alloft með forsvarsmönnum bæjarins um málefni leikskólastarfsfólks á undanförnum misserum. Út úr þeim fundahöldum hefur ekkert haldfast komið.

Það er verk að vinna ef leysa á mönnunarvandamálin í leikskólunum. Verkið snýst ekki síst um að viðurkenna vandann, horfast í augu við hann og leita síðan leiða til að bregðast við honum. Fyrst og síðast þarf að bæta kjör leikskólastarfsfólksins í Hafnarfirði til jafns við það sem tíðkast í nágrannasveitarfélögunum. Þá er hálfur sigur unninn. Sú breyting og viðurkenning mun breyta því ríkjandi viðhorfi starfsfólksins að stjórnendur beri takmarkaða virðingu fyrir mikilvægi starfanna.