segir Kamal, sem hefur starfað í Straumsvík í meira en tuttugu ár
Kamaldeep Singh er fæddur og uppalinn á Indlandi, en flutti til Íslands fyrir aldarfjórðungi. Bróðir hans hafði flust til Íslands nokkrum árum áður. Kamaldeep, sem í daglegu tali er kallaður Kamal, vann fyrst í Sjólastöðinni í Hafnafirði frá ágúst 1996 til mars 1998 og svo frá júlí 1998 til maí 1999. Síðan byrjaði hann að vinna hjá ÍSAL, 8. júní 1999.
„Ég kom til Íslands 16. ágúst 1996, tuttugu og eins árs gamall,“ segir Kamal. „Ég kom fyrst til að heimsækja bróður minn og fjölskyldu hans. Hann hvatti mig til að koma af því að hér væri opið samfélag, litlar hömlur og mikið frelsi.“
Varð að velja
Kamal er fæddur í Meerut, nánar tiltekið í þorpinu Salarpur sem er í um 70 kílómetra fjarlægð frá Delhi. Í Meerut býr um ein milljón manna. Hann á einn bróður, sem býr á Íslandi eins og áður segir og systur sem býr í Delhi. Hún hefur aldrei komið til Íslands. Fjölskyldan hefur búið þarna mjög lengi, mann fram af manni. Foreldrar þeirra eru bæði látin. „Pabbi var hermaður, en var kominn á eftirlaun og ræktaði ýmiss konar matjurtir. Við gengum í skóla sem var starfræktur af kristnum, á að giska 6-7 kílómetra frá heimilinu.“ Fyrsta námið var samt undir handleiðslu systur hans og síðan bróður. „Þau hafa kennt mér mikið, bæði um það sem tengist námi og lífinu sjálfu.” Á svæðinu þar sem Kamal bjó, er meirihlutinn hindúar, síðan er múhameðstrúarfólk og lítill hluti kristnir. „Við gengum í skóla fyrir kristna, af því að það var besti skólinn. Foreldrar okkar lögðu mikla áherslu á að við fengjum góða menntun. Ég kynntist þá dálítið menningu kristinna.“ Síðan lá leiðin í framhaldsskóla og eftir það í háskóla. Þar var Kamal í 2 ár og lagði stund á BA-nám í hagfræði, samfélagsfræði og ensku. „Þá fór ég til Íslands. Ég ætlaði alltaf að ljúka náminu og fór til baka eftir að hafa verið hér í tvö ár, en skipti svo um skoðun. Ég gæti ekki flakkað svona á milli vegna vinnu og skóla. Mér líkaði Ísland betur. Þar fengi ég meira af því sem ég er að leita eftir,“ segir Kamal. Hann byrjaði í Tækniskólanum, en hætti við. „Ég var kominn með fjölskylduna til mín og einhver þurfti að vinna. Það var samt engin tregða hér í kerfinu, ég komst í skólann og það var vel tekið á móti mér. Ég fékk tækifæri, en þurfti að velja.“
Kamal á konu og tvö börn, son sem er fæddur 1999 og dóttur, sem er fædd í desember 2005. „Sonurinn var tveggja ára þegar hann kom en stúlkan er fædd hér. Fjölskylda mín og fjölskylda konunnar minnar þekktust áður. Konan mín er frá þessu sama svæði, um 40 km þaðan sem ég bjó.“ Eiginkona Kamal vann lengi hjá Póstinum, en eftir að starfsstöðinni í Hafnarfirði var lokað, hefur hún unnið í Krónunni í hálfu starfi.
Heldur tryggð við heimahagana
Kamal reynir að heimsækja heimahagana einu sinni á ári, en hefur ekki komist þangað frá í desember 2019. Covid hefur komið hart niður á Indverjum. „Í bylgjunni sem var í mars og apríl á þessu ári var ég alltaf með hnút í maganum þegar ég hringdi út, yfir því hvort ég fengi vondar fréttir.“ Kamal segist reyna að vinna aukavinnu í fríunum með því að taka aukavaktir. „Með því safna ég fríum sem ég get notað til að lengja sumarfrí og þess háttar. Þegar krakkarnir voru yngri fór ég kannski í tveggja til þriggja mánaða frí af því að ég var búinn að lengja fríið með því að vinna aukavaktir. Síðan er gott að geta tekið aukavaktir ef það koma aukaútgjöld sem maður hefur ekki gert ráð fyrir.“
Fjölskyldan hefur ferðast talsvert á Íslandi, ekki síst eftir að Covid byrjaði og fækka þurfti ferðum til Indlands. „Núna förum við mikið dagsferðir og lengri ferðir á sumrin þegar allir eiga frí, förum í nokkurra daga ferðir, erum í sumarhúsum eða hótelum,“ segir Kamal.
Aðaltungumálið á heimaslóðum Kamal er hindí, sem hefur þróast út úr fornmálinu sanskrít. „Það eru 25 eða 26 tungumál í landinu, en síðan eru fjölmargar mállýskur. Það hindí sem er talað í Delhi er allt annað en það hindí sem er talaði í Bihar, sem er næsta stórborg. Í 100 kílómetra fjarlægð frá mínum heimabæ, skil ég ekki nema helminginn af því sem sagt er, þótt þar sé líka talað hindí.
Það leynir sér ekki að Kamal líkar vel á Íslandi. Hann segir að börnin séu aðallega Íslendingar, þau þekki ekki annað. Bæði eru enn í heimahúsum, sonurinn er búinn með rafvirkjun og er núna að læra grafíska hönnun. Dóttirin er nýbyrjuð í Verslunarskólanum. „Þau eru bæði miklu meiri Íslendingar en Indverjar. Sonurinn, sem er fæddur á Indlandi, er enn meiri Íslendingur en dóttirin, sem er fædd hér. Við konan mín erum orðin það mikið tengd Íslandi að við sjáum fyrir okkur að skipta tímanum milli Íslands og Indlands. Ég býst við að vinna áfram hér og eiga svo þriggja til fjögurra mánaða frí sem við gætum eytt úti, yfir vetrartímann.“ Kamal segist eiga tækifæri á að fá sex mánaða frí á fimm ára fresti og bætir við, að hjá ÍSAL hafi stjórnendur verið liðlegir og hann sé þakklátur fyrir hve mikinn skilning þeir hafi sýnt aðstæðum hans. „Mér líkar vel að vinna í Straumsvík og hef allan tímann verið í kerskála. Ég lauk Stóriðjuskólanum 2004, lærði mikið þar og það skilaði mér 10-11% hækkun launa.“
Fletti upp í orðabókinni á kvöldin
Maður tekur fljótt eftir því hve góða íslensku Kamal talar og hve vel hann skilur hana. Hann segist fyrst hafa búið hjá fjölskyldu bróður síns í eitt og hálft ár og hafa lært mikið af þeim. „Ég var oftast með orðabók í vasanum. Ef ég skildi ekki hvað fólk sagði, skrifaði ég það niður og fletti því svo upp í orðabókinni um kvöldið, áður en ég fór að sofa. Markmiðið var að skilja útvarpið, ná fréttum og fleira. Eftir eitt ár gat ég bjargað mér, farið í búðir og gert mig skiljanlegan. Eftir tvö ár var ég farinn að geta hlustað á útvarp. Til að byrja með fór ég tvisvar í viku á bókasafnið, fékk lánaðar bækur og las tímarit og Morgunblaðið í bókasafninu. Síðan breyttist þetta þegar netið kom.“
Kamal segist líta bæði á Indland og Ísland sem heimili sitt. „Ég er eins og maður með tvær mæður – tvö föðurlönd. Annað föðurlandið er þar sem ég fæddist og hitt er landið sem ól mig upp. Ég hef ferðast miklu meira á Íslandi en á Indlandi, þar hef ég eiginlega bara komið til Delhi, auk heimaslóðanna. Ég hef hitt Íslendinga sem hafa ferðast meira á Indlandi en ég. Tannlæknirinn minn hefur ferðast talsvert um suður Indland. Hann spurði mig einhverra spurninga um suður Indland og ég var alveg blankur. Síðan var ég einhvern tímann í tímum hjá Guðmundi Ólafssyni hagfræðingi, í Háskóla Íslands, og hann vissi miklu meira um marga hluti, sérstaklega í sambandi við sanskrít og tungumálin en ég, Indverjinn.“
Ræktað allt árið
Þótt Kamal sé enn á besta aldri, en hann farinn að hugsa um hvernig fjölskyldan kemur til með að verja tímanum þegar hann hætti að vinna. „Þegar ég var yngri sá ég það þannig fyrir að ég yrði meira á Indlandi, sérstaklega eftir að ég hætti að vinna, en núna er ég farinn að huga að hvorum megin er betri heilbrigðisþjónusta. Fólk þarf oft meira á henni að halda með aldrinum. Hún er betri hér. Það er góður aðgangur að góðum læknum á Indlandi, en það er dýrt. Þegar kerfið er þannig, þá er samband sjúklings og læknis öðruvísi. Sjúklingurinn er viðskiptavinur. Læknirinn sendir þann sem getur borgað vel í alls konar próf og selur honum alls konar pillur, af því að hann getur borgað vel. Mér finnst kerfið betra þar sem þú færð nauðsynlega þjónustu hvort sem þú getur borgað eða ekki.“
Hann segist ekki kvíða aðgerðaleysi þegar hann hætti að vinna. „Ég á smá landskika sem ég erfði frá foreldrum mínum og þar á ég hús, ekki langt frá borginni. Yfir veturinn rækta ég kartöflur, gulrætur og svoleiðis. Svo get ég ræktað sykur, hveiti og hrísgrjón yfir regntímann. Það er hægt að rækta allt árið og hægt að fá þrjár til fjórar mismunandi uppskerur yfir árið af sama skikanum. Frá október til mars er þægilegur hiti, 25-30 gráður. Aftur á móti er kalt í desember og janúar, þegar hitinn fer niður í 10-15 gráður. Þá er ég í jakka og heimamenn gera grín að mér; – þú býrð á Íslandi og þér er kalt þegar þú kemur hingað, segja þeir. Í febrúar og mars er hitinn aftur kominn í 25-30 gráður. Í maí, júní og júli er mjög heitt og mikið um moskító og þá fer malarían og fleiri sjúkdómar að herja á fólkið. Monsúntíminn byrjar í enda júní og er til enda ágúst. Það getur rignt fjóra til fimm daga stöðugt og svo koma skúrir á milli.“
”Annars er kenningin þannig, að ef þú gerir ekkert rangt, þá er guð með þér. Ef þú gerir eitthvað sem þú átt ekki að gera, þá skiptir ekki máli hversu oft þú ferð á trúarsamkomu, guð er ekki með þér.
Íslendingar hafa tekið okkur mjög vel
Það eru ekki mjög margir Indverjar á Íslandi núna segir Kamal, en það hafi verið nokkur hópur hér fyrir efnahagshrunið. Þá hafi TCS endurskoðunarfyrirtækið opnað starfsstöð, en flestir hafi farið aftur. „Það er helst að ég sjái fólkið þegar sendiráðið heldur einhverjar samkomur í sambandi við hátíðir, eins og Diwali og fleira.“ Fjölskyldan er með indversk vegabréf, en sé með langtíma landvistarleyfi. Þetta hafi gengið mjög vel og ekki valdið neinum vandræðum.
Hann segir Íslendinga hafa tekið fjölskyldunni mjög vel og hann hafi aldrei orðið fyrir óþægindum. „Mér fannst ég vera heima um leið og ég kom til Íslands og stundum held ég að ég hafi tengst Íslendingum í fyrra lífi. Íslendingar hafa tekið mér og mínu fólki mjög vel. Ég er mjög þakklátur fyrir það. Það er enginn að skipta sér af, trufla mann eða hafa skoðun á því á hvað maður trúir. Mér finnst líka mjög gott að fólki sé ekki mismunað í almennri umgengni. Ef þú ert næstur í röðinni í búð og það kemur ráðherra inn í búðina, þá ertu áfram næstur í röðinni. Ráðherrann er ekkert tekinn fram fyrir þig. Á vinnustað eins og í Straumsvík, er stundum verið að atast í fólki, en ekkert meira í mér en mínum jafnöldrum. Framkoma fólks hefur verið mjög góð á vinnustaðnum. Líka frá stjórnendum. Þú færð ákveðin verkefni og þér er treyst fyrir þeim.“
Það er vel þekkt að trúarbrögð gegna miklu hlutverki í indversku samfélagi. Kamal segir þó, að í hans nánasta umhverfi hafi áhrifin ekki verið jafn djúpstæð og víða annars staðar á Indlandi. Hann segir það ekki svo ólíkt því sem hann hafi kynnst á Íslandi. „Margir fara á vissum dögum í kirkju, en hjá okkur fer fólk í hof. Þeir sem eru mjög trúaðir fara kannski einu sinni í viku, en venjulega fer fólk aðallega á sérstökum hátíðum, til að sýna smá þakklæti. Annars er kenningin þannig, að ef þú gerir ekkert rangt, þá er guð með þér. Ef þú gerir eitthvað sem þú átt ekki að gera, þá skiptir ekki máli hversu oft þú ferð á trúarsamkomu, guð er ekki með þér. Það skiptir engu máli hvar þú ert. Guð er með þér ef þú gerir rétt og það skiptir engu máli hvað við köllum hann.“ Faðir Kamal kenndi honum að blanda ekki saman trúarbrögðum og daglegu lífi. „Trúin er fyrir þig sjálfan og ekki blanda henni í daglegt líf. Hann kenndi mér líka að taka sem minnst lán og skulda sem minnst. Þetta tvennt lagði ég á minnið og reyni að fara eftir því.“