Skip to main content

Stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar og trúnaðarmenn í leikskólum í Hafnarfirði hafa samþykkt eftirfarandi ályktun

 

Ályktun stjórnar og starfsfólks í leikskólum í Hafnarfirði

Stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar og trúnaðarmenn starfsfólks í leikskólum Hafnarfjarðar hvetja bæjarstjórn Hafnarfjarðar til þess að jafna kjör starfsfólks við kjör fólks í sambærilegum störfum í nágrannasveitarfélögunum.

Áform um greiðslu fimm yfirvinnutíma – umfram kjarasamning – er skref í rétta átt, en allt of lítið til þess að brúa þetta bil. Gangi þau eftir, mun eftir sem áður muna tugum þúsunda á mánaðarlaunum almenns starfsfólks í leikskólum í Hafnarfirði annars vegar og nágrannasveitarfélögunum hins vegar.

Þeir sem halda því fram að ekki sé hægt að greiða umfram kjarasamninga, tala gegn betri vitund. Í því sambandi væri áhugavert að skoða hversu margir af starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar fá laun samkvæmt strípuðum töxtum eins og þeir birtast í kjarasamningi viðkomandi starfsmanns. Það væri til dæmis hægt að byrja slíka skoðun í ráðhúsinu.

Á fundum, meðal annars í bæjarstjórn, hafa sumir fulltrúar haldið því fram að leiðrétting af því tagi sem starfsfólkið krefst, raski jafnlaunastefnu Hafnarfjarðar og jafnlaunavottun. Slíkur málflutningur er ótrúlegur og varla til annars ætlaður en að drepa málum á dreif. Jafnlaunastefna gengur ekki hvað síst út á að koma í veg fyrir óútskýrðan mun á launum kvenna og karla. Ef lítilsháttar hækkun á launum láglaunahóps, sem er að stærstum hluta konur, ógnar jafnlaunastefnu Hafnarfjarðarbæjar, þá þarfnast hún augljóslega endurskoðunar.

Það er einlæg von stjórnar félagsins og trúnaðarmanna í leikskólum bæjarins, að bæjarstjórn nýti það tækifæri sem felst í fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 til þess að jafna þann mun sem er á launum leikskólastarfsfólks í Hafnarfirði og nágrannasveitarfélögunum.

Það er auðvelt að eyða þessum mun og núna er rétti tíminn. Leiðrétting kjara þessa hóps væri mikilvægt skref í þá átt að stöðva atgervisflótta úr leikskólum í Hafnarfirði.